
Hannes Þ. Sigurðsson, fyrrum landsliðsmaður Íslands, heilsaði upp á menn á síðustu æfingu landsliðsins í München. Hannes lék fyrir landsliðið 2005-2008 en undanfarin fimm ár hefur hann starfað í þjálfun í Þýskalandi. Hann er nú með SV Wacker Burghausen í þýsku D-deildinni.
Hannes spjallaði við Fótbolta.net eftir æfingu Íslands og ræddi þar um málin fyrir leik Íslands gegn Bosníu sem fram fer annað kvöld, og skoðaði riðilinn.
Hannes spjallaði við Fótbolta.net eftir æfingu Íslands og ræddi þar um málin fyrir leik Íslands gegn Bosníu sem fram fer annað kvöld, og skoðaði riðilinn.
„Það er ekki oft sem maður hefur færi á að sjá landsliðið eða samlanda sína yfir höfuð. Þegar landsliðið er að æfa í grennd við mig þá nýti ég auðvitað tækifærið og kíki á þá," sagði Hannes.
„Mér líst mjög vel á þetta. Maður sér að það er góð stemning í hópnum og ég held að menn séu tilbúnir í verkefnið sem kemur. Það er gleði, léttleiki sem ber vonandi vott um ákveðna samheldni sem er rosalega mikilvæg í leiknum á morgun."
Það eru mikilvægir menn komnir inn í hópinn og aldurssamsetningin orðin eðlilegri en hún var.
„Hvenær vorum við síðast með þann möguleika að vera með þessa blöndu? Við erum búnir að vera með gríðarlega ungt lið síðustu tvö árin. Ég held að það gefi liðinu rosalega mikið þó að Aron (Einar Gunnarsson) sé ekki að spila á morgun. Það að hann sé til staðar og aðrir sem upplifðu gullaldartímann - að þeir komi með þann kúltúr sem var til staðar í gegnum það tímabil - held ég að hjálpi þessum ungu leikmönnum."
Það er mjög mikilvægt að ná í góð úrslit á morgun. „Ég held að það sé mjög mikilvægt, líka þegar maður horfir á umfjöllunina sem er í kringum liðið. Til að gefa ekki bara liðinu, heldur líka þjóðinni, trú á það verkefni sem er í gangi þá er mikilvægt að ná í góð úrslit. Jafntefli væru góð úrslit, þó maður vonist auðvitað eftir sigri."
Markmiðið er að komast á lokakeppni EM. „Það ætti líka að vera það. Hvorki Bosnía né Slóvakía hafa farið með himinskautum síðustu ár. Það gefur okkur mikið að gömlu stjörnurnar séu komnir aftur, það gefur þessum ungu strákum þá trú sem við þurfum að hafa."
Hannes segir enga ástæðu til annars en að vera bjartsýnn með þá kynslóð sem er að koma upp. Í viðtalinu, sem sjá má í sjónvarpinu hér að ofan, ræðir Hannes einnig um sín mál í Þýskalandi.
Athugasemdir