
Þorlákur Árnason þjálfari Þórs var að vonum ánægður með sigur Þórs gegn Ægi í Lengjudeildinni í dag eftir 6-0 tap liðsins gegn Fjölni í síðustu umferð.
Lestu um leikinn: Þór 3 - 1 Ægir
„Ánægður með endurkomuna eftir skellinn á móti Fjölni um daginn. Það er ekki létt að tapa stórt eins og við gerðum þá, það hefur áhrif á sjálfstraust leikmanna og allra sem eru í kringum liðið en ég er gríðarlega ánægður með svarið í dag," sagði Láki.
„Það er búið að vera erfið vika, búnir að æfa vel og menn voru einbeittir. Maður sá það í upphitun að menn ætluðu að svara fyrir síðasta leik og við gerðum það vel í dag gegn góðu Ægisliði."
Fannar Daði Malmquist Gíslason var í byrjunarliðinu í dag en hann er að loka hægt og rólega til baka eftir krossbandaslit. Hann skoraði fyrsta mark Þórs.
„Mér fannst hann frábær. Hann er örugglega að fara hlusta á þetta viðtal en við verðum að skammta honum mínútur og vera skynsamir, hann er gríðarlega mikilvægur liðinu," sagði Láki.