
„Ég er bara hrikalega svekktur. Þetta eru mikil vonbrigði en á móti er ég mjög ánægður með stelpurnar. Frammistaðan var að mér fannst bara mjög góð. Síðan fáum við bara tvö skítamörk á okkur. Við skorum síðan mark en dómarinn vildi ekki meina að boltinn hafi verið inni. Það var bara fyrst og fremst vonbrigði að tapa þessum leik.“ sagði Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Fylkis, eftir grátlegt tap gegn Víkingum í dag.
Lestu um leikinn: Fylkir 1 - 2 Víkingur R.
Hvernig útskýrði dómarinn fyrir þér þessu marki sem hann gaf ykkur en tók síðan af ykkur stuttu seinna?
„Ég veit það ekki. Hann breytti dómnum örugglega eftir einhverjar samræður við aðstoðardómarann. Sennilega var það bara brot en ég get ekki sagt meira en það.“
Fyrir utan markið sem þið fáið á ykkur alveg í restina, ertu þá samt ekki bara ánægður með frammistöðuna?
„Jú virkilega. Eins og ég sagði áðan fannst mér frammistaðan mjög góð. Við áttum marga mjög góða spilakafla og vorum að keppa á móti hörkuliði. Þetta var bara spurning um hvoru meginn þetta myndi detta og þetta datt þeirra megin í dag. Við þurfum bara að læra að vinna leiki.“
Þið eruð með sjö stig eftir fimm leiki, hvernig finnst þér þetta hafa farið af stað?
„Já margt bara mjög gott en það er líka margt sem við getum gert betur. Vissulega hefðum við viljað vera með fleiri stig en báðir tapleikirnir hafa komið á móti liðum sem er spáð í efstu sætunum. Við gáfum þeim hörkuleik og lukkudísarnar voru bara á þeirra bandi í dag.“
Viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.