Ísland tapaði gegn Tyrklandi ytra í kvöld í öðrum leik liðsins í Þjóðadeildinni í ár. Fótbolti.net ræddi við Jóhann Berg Guðmundsson, fyrirliða liðsins, eftir leikinn.
Lestu um leikinn: Tyrkland 3 - 1 Ísland
„Ég gaf þeim mark, lélegt hjá mér að missa boltann á slæmum stað. Þetta voru erfiðar fyrstu tuttugu mínútur svo jöfnum við úr frábæru horni. Við vorum þannig séð í ágætu jafnvægi, þeir auðvitað meira með boltann og við að verjast. Þetta var högg markið sem þeir negla í fjær, frábært mark hjá honum en eitthvað sem við þurfum að gera betur," sagði Jói Berg.
„Fyrstu tuttugu mínúturnar voru alls ekki nógu góðar, ég er fyrstur að viðurkenna það þegar ég er ekki nógu góður. Vonandi nær maður að koma sér aftur inn í leikinn og hjálpa liðinu að komast inn í leikinn og ég gerði það."
Íslenska liðið hefur skorað öll mörkin eftir hornspyrnu í keppninni til þessa.
„Við erum búnir að æfa þetta vel og erum með alvöru menn þarna sem vilja skora mörk og við nýtum okkur auðvitað öll tækifæri. Nú ere það bara í næsta glugga að skora úr opnum leik, ekki alltaf bara úr hornspyrnu," sagði Jói Berg.
Íslenska liðið stefnir á sex stig í næstu leikjum liðsins sem verða gegn Wales og Tyrklandi á Laugardalsvelli í október.
„Við þurfum að stefna á að ná í 6 stig þar, það er ekkert annað í boði. Tveir heimaleikir og vonandi sjáum við sem flesta á Laugardalsvellinum," sagði Jói Berg að lokum.