Stjarnan tók á móti Þór/KA í dag þar sem Akureyrarliðið bar sigur úr býtum með fjórum mörkum gegn einu. Sandra María Jessen náði stórum áfanga í dag þegar hún skoraði tvö mörk í leiknum og er þar með komin með 101 mark í efstu deild.
Lestu um leikinn: Stjarnan 1 - 4 Þór/KA
Sandra var afar ánægð með það að hafa náð þessum áfanga.
„Það er klárlega búið að vera markmiðið í ákveðinn tíma að ná þeirri tölu og bara rosa stolt af því að það hafi komið í dag ekki síst þegar sigurinn var svona.“
Aðspurð að því hvaða mark sé eftirminnilegast hafði hún þetta að segja.
„Ætli það hafi ekki verið þegar ég tryggði okkur Íslandsmeistaratitilinn árið 2017. Það stendur kannski mest upp úr. Auðvitað hafa verið mörg mikilvæg og mörg sem kannski hafa ekki beint skipt máli en það er alltaf gaman að skora.“
Einnig var Sandra afar stolt af sínu liði í leiknum við Stjörnuna í dag.
„Bara rosalega stolt af okkur. Þetta var erfiður útivöllur til að ná í þrjú stig á og mér fannst við stíga upp eftir því sem leið á leikinn og eiga mjög flottan seinni hálfleik þannig maður er stolt núna.
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.