„Úr því sem komið var miðað við báða hálfleiki þá held ég að við getum alveg sætt okkur við þetta jafntefli. Við fengum auðvitað fullt af færum til þess að klára leikinn bæði í fyrri hálfleik og byrjun seinni en sanngjörn úrlslit heilt yfir.“ Sagði Júlíus Magnússon fyrirliði Víkinga um úrslit leiksins eftir 2-2 jafntefli Víkinga og Vals í Fossvoginum fyrr í kvöld.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 2 - 2 Valur
Leikmenn Víkinga virkuðu ansi lúnir þegar líða fór á seinni hálfleik og virkaði jafnvel eins og álag síðustu vikna auk þess sem meiðsli herja á hópinn væri farið að hafa áhrif á orkustig leikmanna.
„Það er búið að vera nóg að gera en ég held að allir leikmenn séu sammála því að þetta sé skemmtilegra en að æfa oftar og spila minna og ég held að það séu bara forréttindi að fá að spila svona marga leiki. Sérstaklega þegar þú ert í öllum keppnum og bara frábært að gíra sig upp í mismunandi leiki.“
Víkingar fá nú kærkomna hvíld en sex dagar eru í að liðið mæti KA á Akureyri næstkomandi sunnudag. Og hvernig mun hópurinn bregðast við úrslitum kvöldsins?
„Sex dagar við tökum þeim fagnandi. Við þurfum að endurstilla okkur og gíra okkur upp fyrir það. Við verðum bara að treysta á okkar gæði í liðinu og megum ekki hafa efasemdir. Það sást alveg að þegar við komumst hátt á völlinn þá erum við góðir sama á móti hvaða liði við spilum þannig að við þurfum bara að treysta því að þetta falli með okkur eða að við séum klárari í að klára færin.“
Sagði Júlíus en allt viðtalið má sjá hér að ofan.
Athugasemdir