
Íris Dögg Gunnarsdóttir, markvörður Þróttar R., hafði lítið að gera er Stjarnan kíkti í heimsókn í Laugardalinn.
Lestu um leikinn: Þróttur R. 2 - 0 Stjarnan
Liðin mættust í mikilvægum slag í baráttunni um þriðja sæti Pepsi Max-deildar kvenna og var Þróttur með yfirhöndina allan tímann. Fyrsta mark leiksins leit þó ekki dagsins ljós fyrr en eftir leikhlé.
„Þriðja sætið er staðurinn sem við viljum vera á og eins og staðan er núna þá erum við þar. Við vorum tilbúnar í allt í dag, við vorum varnarlega tilbúnar í þessi hlaup innfyrir og svo vildum við nýta kantana og halda þeim til baka," sagði Íris Dögg.
„Hann sagði við okkur í hálfleik að við ættum að vera búnar að drepa þennan leik og að við gætum þetta. Hann róaði okkur niður og sagði okkur að vera þolinmóðar," bætti hún við um Nik Chamberlain þjálfara liðsins.
Íris Dögg var varamarkvörður hjá Breiðablik í fyrra og segir að Jamie Brassington markmannsþjálfari hjá Þrótti hafi sannfært sig um að skipta yfir í Laugardalinn frekar en einhvert annað.
Athugasemdir