Næstu þrír leikir ráða framtíð Amorim - Glasner, Southgate, Silva og Iraola orðaðir við Man Utd - Liverpool horfir til Araujo
   mið 17. september 2025 18:48
Brynjar Ingi Erluson
Lengjudeildin: Njarðvík hafði betur gegn Keflavík - Diouck fékk viljandi rautt til að ná úrslitaleiknum
Lengjudeildin
Oumar Diouck skoraði og sá síðan rautt í lok leiks, en hann hefur viljandi sótt seinna gula svo hann verði ekki í banni í úrslitaleiknum
Oumar Diouck skoraði og sá síðan rautt í lok leiks, en hann hefur viljandi sótt seinna gula svo hann verði ekki í banni í úrslitaleiknum
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Stefan Ljubicic gaf Keflvíkingum von
Stefan Ljubicic gaf Keflvíkingum von
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Keflavík 1 - 2 Njarðvík
0-1 Oumar Diouck ('20 )
0-2 Tómas Bjarki Jónsson ('32 , víti)
1-2 Stefan Alexander Ljubicic ('68 )
Rautt spjald: Oumar Diouck, Njarðvík ('94) Lestu um leikinn

Njarðík vann nauman 2-1 sigur á nágrönnum sínum í Keflavík á HS Orkuvellinum í fyrri undanúrslitaleik liðanna í umspili um sæti í Bestu deild karla í kvöld.

Njarðvíkingar voru taldir sigurstranglegri fyrir þetta einvígið eftir að hafa hafnað í öðru sæti deildarinnar á meðan Keflvíkingar komu sér inn í umspilið í lokaumferðinni.

Það kom því kannski ekkert á óvart að Njarðvík hafi komist yfir á 20. mínútu er Oumar Diouck kom boltanum í netið. Njarðvíkingar fengu aukaspyrnu sem var komið inn á teiginn. Boltinn hrökk á milli manna áður en Diouck setti hann í markið.

Tólf mínútum síðar fengu gestirnir vítaspyrnu sem enginn skildi neitt í. Marin Brigic fékk gula spjaldið og skoraði Tómas Bjarki Jónsson úr vítinu.

Twana Khalid Ahmed, dómari leiksins, var handviss og sást það í endursýningunni að dómurinn var hárréttur, en Brigic sparkaði niður leikmann Njarðvíkur.

Njarðvíkingar fóru með tveggja marka forystu inn í hálfleikinn og byrjuðu heimamenn í Keflavík seinni hálfleikinn sterkt.

Stefan Alexander Ljubicic setti boltann í markið á 52. mínútu en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Nacho Heras reyndi þá stuttu síðar fyrirgjöf sem hafnaði í þverslá og heimamenn að færast nær því að skora.

Keflavík var hins vegar ekki eina liðið sem var að ógna. Sindri Kristinn Ólafsson varði í tvígang vel frá Njarðvíkingum, en Keflavík hafði á endanum betur í leitinni að þessu dýrmæta þriðja marki.

Heimamenn fengu hornspyrnu sem var sett á nærstöng og þar var Stefan mættur til að reka hausnum í boltann og munurinn kominn niður í eitt mark.

Meðbyrinn var með Keflvíkingum sem héldu áfram að skapa usla á vallarhelmingi granna sinna. Tíu mínútum fyrir leikslok féll Stefan í teignum eftir viðskipti sín við Aron Snær Friðriksson, markvörð Njarðvíkur, en Twana lét það vera að blása í flautuna. Keflvíkingar gríðarlega ósáttir við þessa ákvörðun.

Í uppbótartíma sá Diouck sitt annað gula spjald og þar með rautt og verður hann því ekki með í seinni leiknum sem er auðvitað mikil blóðtaka. Hann hefur viljandi sótt sitt annað gula spjald svo hann verði ekki í banni í úrslitaleiknum, það er að segja ef Njarðvík tekst að klára Keflavík heima. Njarðvík þarna að nýta sér glufur í regluverki KSÍ.

Lokatölur því á HS Orkuvellinum, 2-1, Njarðvíkingum í vil sem fara með ágæta stöðu inn í seinni leikinn sem spilaður er á JBÓ-vellinum á sunnudag.

Sigurvegarinn mun mæta HK eða Þrótti í úrslitaleik um sæti í Bestu deildina.
Athugasemdir
banner