
„Þetta er bara geggjað, geggjað að vinna. Fyrst og fremst vorum við þéttir varnarlega, gáfum fá færi á okkur og þetta var spurning um að loka á leiðir sem þeir vilja fara í. Það tókst bara mjög vel," sagði Eiður Aron Sigurbjörnsson, fyrirliði ÍBV, eftir sigur gegn Kórdrengjum á útivelli í dag.
Lestu um leikinn: Kórdrengir 0 - 1 ÍBV
„Já, ég er nokkuð sáttur með mína frammistöðu. Ég hef verið það yfirleitt í sumar, þetta er búið að ganga ágætlega og dagurinn í dag er enginn undandtekning. Þetta var fínn leikur hjá mér og geggjuð liðsframmistaða."
„Mér fannst við droppa full aftarlega í restina, kannski skiljanlegt en við gerðum það bara vel og stóðumst þungann sem þeir voru með á okkur í lokin. Ég viðurkenni að það var ljúft að heyra flautið í lokin."
Fyrirliði Kórdrengja, Davíð Þór Ásbjörnsson, rotaðist eftir um tólf mínútna leik í seinni hálfleik. Hann fór upp í einvígi við Halldór Pál Geirsson, markvörð ÍBV. Hvernig sá Eiður Aron þetta atvik?
„Það var langur bolti og þeir Dóri og Davíð fara upp í boltann. Ég sá þetta ekki almennilega, eina sem ég pældi í var Davíð þarna því hann var sofnaður í loftinu. Það fyrsta sem ég geri er að tékka á tungu og velta honum á hliðina. Þetta var mjög óheppilegt atvik en vonandi er hann bara heill heilsu."
Það sást að Eiður var mættur til Davíðs andartaki eftir að hann lá í jörðinni. Var sjálfgefið að fara beint í þessar aðgerðir?
„Já, maður hefur oft séð svona moment, þetta er náttúrulega grafalvarlegt þegar það eru höfuðmeiðsli og maðurinn var alveg out. Allir hefðu gert þetta, náttúruleg viðbrögð einhvern veginn," sagði Eiður.
Viðtalið í heild má sjá í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir