„Ari er gríðarlega efnilegur leikmaður og þegar tækifæri gafst þá til stukkum við á að reyna að fá hann til okkar," sagði Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkings en félagið fékk Ara Sigurpálsson í dag til liðs við sig frá Bologna á Ítalíu.
„Samningaviðræður gengu mjög vel, fljótt og örugglega fyrir sig. Það var erfið dvöl hjá honum á Ítalíu. Það er örugglega versta land í heimi til að vera á í Covid faraldri en ég held að hann hafi þroskast mikið á því. Hann meiddist eitthvað en ég held að hann sé tilbúinn að taka skref núna í fullorðins fótbolta. Við höfum fína reynslu af að taka þessa stráka heim, bæta þá, gera þá betri og selja þá svo áfram."
Ari kom til Íslands frá Ítalíu fyrir helgi en þegar hann mætti svo á fyrstu æfinguna í Víkinni í gær var honum rétt skófla og látinn fara að moka snjó af vellinum.
„Þetta er reality check, en við æfum alltaf. Ég er af skaganum andskotinn hafi það. Við erum ekki að aumingjavæða menn hérna. Ég held að hann hafi alveg fundið taktinn í hópnum strax á fyrstu æfingu. Menn eru ákveðnir og það er ekkert væl og skæl," sagði Arnar.
Víkingar urðu Íslands- og bikarmeistarar á síðasta ári og hafa að verið að efla hópinn síðan í haust. Ari er nýjasta viðbótinn.
„ Hann er að koma inn í sterkan hóp og við erum búnir að vinna titla. Hann þarf að gjöra svo vel að vera fljótur að læra og hann fær alveg tíma til þess og ekkert vandamál," sagði Arnar.
„Við þurfum að sjá hver hans besta staða er, þetta er ekkert ósvipað og þegar við tókum Kristal Mána inn á sínum tíma. Það tekur smá tíma að komast inn í hlutina og ekkert stress. Eftir að hafa talað við hann er hann gömul sál líka, hann hefur gríðarlegan metnað á að komast aftur út og við ætlum að hjálpa honum til þess."
Arnar sagði að Ari geti leyst allar framherjastöðurnar á vellinum en sé þó öflugur í varnarleik.
Í viðtalinu segir Arnar líka frá því að Víkingar séu búnir að ráða næringaþjálfara í full starf næstu mánuði.
Hann segir Víkinga vera á eftir öðrum liðum nú í upphafi árs en það væri þó að koma nú þegar hópurinn er að fullmótast. Það vanti þó enn einn leikmann til viðbótar því hann ætlar að kaupa miðvörð. Verið sé að vinna með lista yfir nokkra leikmenn með það.
Athugasemdir