
„Að lokum valdi ég Val og ég er ánægð með það," segir Berglind Rós Ágústsdóttir sem er komin heim til Íslands eftir að hafa leikið á Spáni síðustu mánuði.
Berglind gekk í raðir Sporting de Huelva á Spáni í janúar eftir að hafa í tvö tímabil á undan leikið með Örebro í Svíþjóð. Hún spilaði 13 leiki á tímabilinu sem er núna búið og skoraði eitt mark.
Berglind, sem getur spilað flestar stöður á vellinum, var með tilboð frá Breiðabliki og Val en hún valdi uppeldisfélag sitt. Einnig var áhugi á henni erlendis en hún kaus að koma heim.
„Skólinn spilar stóran part í því en mér fannst ég líka búin að gera vel úti, búin að prófa. Ég er búin að þroskast og allt svoleiðis. Mér fannst þetta rétt ákvörðun núna að koma heim. Ég var glöð með sjálfa mig og ánægð með hvað ég er búin að gera. Ég er að klára skólann og svo sjáum við til hvað gerist," segir Berglind er hún á eitt ár eftir í hjúkrunarfræði.
Á Íslandi er þetta töluvert betra
Berglind var til viðtals hér á Fótbolta.net í nóvember síðastliðnum þegar ljóst var að hún yrði ekki áfram í Örebro í Svíþjóð. Þá var hún að hugsa um að koma heim vegna anna í skólanum en svo kom tilboð frá Spáni. Hún segist vera ánægð með að hafa upplifað að spila fótbolta á nýjum stað og í sterkri deild en það hafi ýmislegt verið ábótavant hjá félaginu sem hún var hjá.
„Þetta var stuttur samningur og mér langaði að prófa og sjá hvernig þetta væri. Engin kona frá Íslandi hefur spilað á Spáni og ég gat ekki vitað mikið um þetta. Þetta var erfið deild og ég upplifði það að spila á móti Barcelona og Real Madrid. Ég ákvað að skella mér þar sem þetta voru fimm mánuðir. Þá gat ég komið aftur heim og séð hvort ég vildi fara aftur út eða ekki," segir Berglind, en umhverfið hjá félaginu var ekki eins gott og hún bjóst við og var það verra en hún hafði upplifað á Íslandi.
„Sumt var jákvætt og sumt var ekki alveg nógu gott. Ég þroskaðist sem leikmaður og manneskja, en fótboltalega séð var þetta allt öðruvísi en ég hélt. Þetta var ekki eins fagmannlegt (e. professional) og ég hélt. Þeir segja að þetta sé í uppbyggingu hjá þeim en þegar ég var þarna þá var þetta ekki eins fagmannlegt og þeir segja. Við spiluðum á öðrum velli en við áttum að spila á og við vorum ekki með neinn ákveðinn klefa. Það er margt sem má bæta þarna. En stelpurnar voru æðislegar og það var gott að búa á Spáni. Ég tek það með mér."
Deildin á Spáni er alltaf að verða sterkari. „Þetta er góð deild, stór deild. Maður býst við því að þetta sé gott. Hérna á Íslandi er þetta töluvert betra, umgjörð og hvernig þetta er. Við æfðum á morgnana, tvisvar á dag en æfingarnar voru ekki eins góðar og ég hélt. Við vorum með mjög góða leikmenn en þeir náðu ekki eins mikið úr því og þeir hefðu átt að gera."
Komin heim í Val
Berglind, sem er 27 ára, er komin heim í Val en hún er uppalin hjá félaginu. Hún hefur einnig leikið með Aftureldingu og Fylki hér á landi. Hún útilokar ekki að fara aftur erlendis í framtíðinni en ætlar núna að gera sitt besta á Hlíðarenda. Hún var líka með tilboð frá Breiðabliki.
„Ég fór svolítið fram og til baka. Ég spurði alla í kringum mig sem ég treysti. Þau hjálpuðu mér að gera kosti og galla. Þetta er örugglega ein erfiðasta ákvörðun sem ég hef tekið en ég stend við hana," segir Berglind og bætti við:
„Valur er uppeldisfélagið mitt og það er eitthvað við það að spila aftur fyrir uppeldisfélagið. Meistaradeildin, það hefur alltaf verið markmiðið að spila leik þar. Pétur og allt þjálfarateymið, mér fannst það líta mjög vel út. Svo eru fullt af stelpum þarna sem eru mjög góðar og skemmtilegar."
Hægt er að sjá allt viðtalið í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir