Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 13. október 2020 23:41
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Helgi Valur opnar sig: Var aldrei samþykktur sem landsliðsmaður
Helgi í landsleik haustið 2013.
Helgi í landsleik haustið 2013.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr lokalandsleik Helga, gegn Belgíu í nóvember 2014.
Úr lokalandsleik Helga, gegn Belgíu í nóvember 2014.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eftir leik Íslands og Möltu árið 2005.
Eftir leik Íslands og Möltu árið 2005.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Helgi Valur Daníelsson var gestur Jóhanns Skúla Jónssonar í hlaðvarpsþættinum Draumaliðinu í síðustu viku. Helgi Valur er leikmaður Fylkis en hefur ekki getað leikið með liðinu frá því snemma móts vegna meiðsla.

Helgi valdi draumaliðið skipað samherjum sem hann hefur leikið með á ferlinum. Helgi lék sem atvinnumaður á árunum 2005-2015 og var einnig á mála hjá Peterborough á árunum 1998-2003. Helgi lék á Englandi, í Svíþjóð, Þýskalandi, Danmörku og Portúgal á sínum ferli erlendis.

Kannski of sáttur við sína stöðu
Helgi lék 33 landsleiki á ferli sínum. Í þættinum var farið yfir landsliðsferil Helga. Jói spurði Helga hvort hann hafi fundið mesta traustið á sínum landsliðsferli þegar Lars Lagerbäck tók við landsliðinu síðla árs 2011. Þá var Helgi orðinn þrítugur og hafði spilað átján landsleiki.

„Það er alveg rétt. Kynslóðin sem er eldri en ég var enn í landsliðinu áður en Lars kom og það var auðvitað mikil samkeppni. Mér fannst ég ekki betri en t.d. Brynjar Björn [Gunnarsson] sem var að spila í úrvalsdeildinni. Mér fannst fínt að vera í hópnum og spila einhverja leiki, kom stundum inn á."

„Ég held ég hafi ekki náð nógu mörgum leikjum og ekki náð að sýna það sem ég get í þessum landsleikjum. Þegar Lars kom var hann búinn að sjá mig spila miklu meira en flestir aðrir. Hann býr meira að segja í hverfinu mínu í Stokkhólmi. Hann gerði mig að fyrirliða í fyrsta leiknum sínum á móti Japan. Honum fannst ég sinna því sem ég átti að gera vel. Ég veit líka að það hefur alltaf vantað upp á gæði fram á við og tækni sem þeir sem eru núna í landsliðinu hafa. Ég var í rauninni alltaf sáttur með mína stöðu þar,"
sagði Helgi Valur.

Helgi segir svo að sinn hugsunarháttur hafi mögulega aftrað sér í að ná lengra. Hann hafi alltaf verið sáttur með sína stöðu á meðan aðrir voru ósáttir og trúðu að þeir ættu meira skilið þó raunin væri kannski önnur.

Var aldrei samþykktur sem landsliðsmaður
Næst var komið inn á leikina gegn Albaníu og Sviss haustið 2013. Helgi var veikur gegn Albaníu og var svo „það lélegur" að hann var tekinn af velli fyrir Eið Smára Guðjohnsen í hálfleik gegn Sviss. Íslenska liðið kom til baka í Sviss og náði í mjög eftirminnilegt 4-4 jafntefli.

Eftir leikinn gegn Sviss lék Helgi gegn Kýpur í undankepninni og svo þrjá vináttulandsleiki áður en landsliðsferlinum lauk. Helgi opnaði sig um samþykki frá fjölmiðlum.

„Ég hef í rauninni aldrei verið "samþykktur" sem landsliðsmaður hjá fjölmiðlum og stuðningsmönnum. Auðvitað er það byggt á því hvernig maður stendur sig með landsliðinu. Svo fer maður í félagslið og stendur sig vel, það er svona daglegt brauð að standa sig með liði sínu og svo er landsliðið svona auka. Auðvitað hefði maður viljað standa sig betur og ná fleiri leikjum en liðið var það gott og þeir sem voru á undan mér á miðjunni. Leikmenn eins og Aron Einar Gunnarsson og Gylfi Þór Sigurðsson voru á undan mér og þá á ég ekkert að vera í byrjunarliðinu. Það sér það hver sem vill sjá það."

Jói spurði Helga betur út í að vera aldrei samþykktur sem landsliðsmaður af fjölmiðlamönnum og öðrum. Var það þreytandi eða ná menn að loka á þetta?

„Þetta er ekkert endilega þreytandi. Maður er ósáttur með sjálfan sig að ná ekki að sýna allt. Ég myndi ekki segja að ég hafi fengið ósanngjarna umfjöllun. Eina sem ég er ósáttur við er þegar einhver íþróttafréttaritari veit að þú ert búinn að spila illa og er með glott og tekur viðtal við þig vitandi að þú áttir lélegan leik. Allt skítkast og svoleiðis, auðvitað er orðið meira af þessu núna en var þá. Twitter og slíkt. Ég get ímyndað mér hvernig er að eiga lélegan landsleik núna. Maður þekkir mikið af þessum leikmönnum og þegar menn gera einhver mistök þá er allt brjálað," bætti Helgi við.

Þáttinn í heild sinni má nálgast hér fyrir neðan.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner