„Svekkjandi. Það var skrítið að vera 1-0 undir í hálfleik eftir að hafa stýrt leiknum og fá eina skyndisókn á okkur sem uppskar markið hjá Skagamönnum," voru fyrstu viðbrögð Ágústar Gylfasonar þjálfara Stjörnunnar eftir jafnteflið á Samsungvellinum.
Lestu um leikinn: Stjarnan 2 - 2 ÍA
Stjarnan var meira með boltann en náðu ekki að skapa sér nógu mörg opin færi og var Ágúst spurður út í sóknarleikinn á síðasta þriðjung.
„Óheppnir eða ekki, ég veit það ekki. Við vorum kannski nógu skilvirkir og öflugir að hitta á markið, við sköpuðum okkur ákjósanleg færi en ég er ánægður með síðari hálfleikinn, skora þessi tvö mörk og við áttum að sigla þessu heim."
Ágúst var spurður hvort honum hafi fundist þetta sanngjörn niðurstaða.
„Sanngjarnt í fótbolta, það er of skrítið. Skaginn spilar bara eins og þeir spila. Þeir spiluðu langt og spiluðu bak við okkur og það er eitthvað sem þeir ætluðu að leggja upp með fannst mér. Við spiluðum boltanum, vorum ekki nógu beinskeyttir í fyrri en beinskeyttari í seinni þannig niðurstaðan eitt stig og við breytum því ekki."
Viðtalið í heild sinni má sjá í heild í sjónvarpinu hér að ofan.