
„Ég er spennt fyrir þessu. Þetta eru tveir mjög mikilvægir leikir fyrir okkur og seinasta verkefnið áður en við förum í 'pre-camp' fyrir EM og það er fullur fókus á þetta. Við þurfum að klára þessa tvo leiki og koma okkur í góða stöðu fyrir haustið," sagði Glódís Perla Viggósdóttir, leikmaður íslenska landsliðsins, fyrir leikina tvo í undankeppni HM.
Íslenska liðið spilar við Hvíta-Rússlandi í Belgrad í Serbíu á morgun og getur með sigri komist upp fyrir Holland.
Liðið er í öðru sæti riðilsins með 9 stig, tveimur stigum á eftir Hollandi.
Hún býst við því að lið Hvíta-Rússland muni liggja til baka og er spennt að sjá hvernig íslenska liðið mun eiga við það.
„Þær eru með fínt lið. Það eru góðar að skyndisækja og þegar þær gera það þá sækja þær með mikið af fólki. Ég held að þetta verði hörkuleikur og við þurfum að vera með kveikt á perunni í 90 mínútur. Ég er spennt að sjá okkur á móti svona liði sem mun liggja meira til baka og beita skyndisóknum."
Leikurinn fer fram á Vozdovac-leikvanginum í Belgrad og verður spilaður fyrir luktum dyrum.
„Við erum að koma hérna í fyrsta skiptið. Mér líst vel á grasið, betra en það sem við höfum verið að æfa á."
„Það er mjög skrítið en þetta er eins og þetta er. Við ætlum að koma og taka stigin og fara svo til Tékklands og klára það," sagði hún enn fremur en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.
Athugasemdir