
Stemningin er svakaleg í Picadilly-garðinum í Manchester en íslensku stuðningsmennirnir hita nú upp fyrir fyrsta leikinn sem er spilaður gegn Belgíu klukkan 16:00 í dag.
Leikurinn fer fram á akademíuvelli Manchester City og er þetta hreinn úrslitaleikur, en íslenska liðið þarf að fá stig úr þessum leik til að eiga góðan möguleika á að komast upp úr riðlinum.
Fótbolti.net er á svæðinu og ræddi við stuðningsmenn íslenska liðsins í dag en þar var meðal annars rætt við Dýrfinnu Arnardóttur, systur Guðrúnar, sem verður væntanlega í hjarta varnarinnar gegn Belgíu í dag. Kærasti Dýrfinnu er körfuboltamaðurinn Kári Jónsson, sem er á mála hjá Íslandsmeisturum Vals.
„Systir hennar Dýrfinnu er Guðrún í liðinu þannig við fjölskyldan komin til Manchester að styðja og fylgja þessu," sagði Kári, en þau eru að upplifa sitt fyrsta fótboltamót.
„Heyrðu, þetta er í fyrsta sinn sem við förum á EM kvenna og bara fótboltamót. Við erum meira í körfuboltamótunum en það er mikið fjör og spenningur í loftinu."
Þau fóru á Evrópumót karlalandsliðsins í körfubolta fyrir fimm árum en Dýrfinna segir að það hafi verið aðeins öðruvísi tilfinning.
„Já og nei, við fórum á EM karla 2017 og það var aðeins meiri drykkja þar, svona hingað til."
Kári er spenntur fyrir þessu móti.
„Ég held að með þessu veðri og svo er smá fiðringur þannig það er mikill spenningur og fjör. Við erum spennt og bjartsýn."
Þau völdu sér uppáhaldsleikmann á eftir Guðrúnu en Glódís Perla Viggósdóttir er ofarlega á listanum.
„Ég elska Glódísi og finnst hún geggjuð í öllu sem hún gerir og svo Munda," sagði Dýrfinna og tók Kári undir.
„Ég er sammála henni með Glódísi, hún er frábær. Þær verða vonandi mjög gott teymi í hjarta varnarinnar," sagði Kári svo í lokin.
Athugasemdir