mið 07.ágú 2024 17:00 Mynd: EPA |
|
Spáin fyrir enska - 19. sæti: „Settu margir spurningarmerki við þessi kaup okkar"
Það styttist heldur betur í það að þjóðaríþrótt Íslendinga, enska úrvalsdeildin, fari aftur af stað. Líkt og síðustu ár, þá munum við kynna liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Við heyrum líka í stuðningsfólki liðanna og tökum púlsinn fyrir tímabilið sem er framundan.
Næst er það Nottingham Forest sem er spáð 19. sæti deildarinnar. Ef spáin rætist þá fellur Forest niður í Championship.
Sólmundur Örn Jónsson (hér til hægri) er stuðningsmaður Forest. Hér er hann með föður sínum og litla frænda sínum.
En Forest lét það ekki á sig fá. Það gekk nokkuð vel eftir stjórabreytingar á miðju tímabili og á endanum náði liðið að bjarga sér nokkuð þægilega. Þeir voru kannski nokkuð heppnir með að það voru þrjú afskaplega léleg lið í þessari deild. Oft hefur verið talað um að það þurfi í kringum 40 stig til að halda sér uppi en Forest náði að halda sér þægilega uppi með 32 stig.
Forest er sögufrægt félag á Englandi sem á marga stuðningsmenn á Íslandi. Þeir stuðningsmenn vonast eflaust til að þessi spá verði algjört bull. Það eru góðir leikmenn í þessu liði en baráttan í ensku úrvalsdeildinni er afskaplega hörð og deildin í ár kemur til með að vera frekar sterk.
Stjórinn: Nuno Espirito Santo mætti aftur í enska boltann þegar hann tók við Forest af Steve Cooper í desember síðastliðnum. Nuno náði að þjappa liðinu saman og halda því uppi. Hann er kannski ekki mest spennandi þjálfarinn í þessari deild en hann er traustur og hefur sýnt að hann getur gert góða hluti með lið sem er reiknað með að séu í neðri hlutanum. Hann kom til dæmis Úlfunum í Evrópukeppni sem var afskaplega vel gert.
Leikmannaglugginn: Það hefur ekki verið neitt brjálæðislega mikið að frétta hjá Forest í sumar. Þeir hafa tekið því rólega til þess að það verði ekki fleiri stig dregin af þeim í tengslum við ofeyðslu. Evangelos Marinakis, eigandi Forest, hefur þó ekki staðist freistinguna að kaupa nokkra leikmenn.
Komnir:
Elliot Anderson frá Newcastle - 35 milljónir punda
Nikola Milenkovic frá Fiorentina - 12 milljónir punda
Jota Silva frá Vitória de Guimaraes - 5,9 milljónir punda
Carlos Miguel frá Corinthians - 3,4 milljónir punda
Eric da Silva Moreira frá St. Pauli - 1,3 milljónir punda
Marko Stamenic frá Rauðu stjörnunni - Óuppgefið kaupverð
Farnir:
Moussa Niakhaté til Lyon - 27 milljónir punda
Orel Mangala til Lyon - 15 milljónir punda
Remo Freuler til Bologna - 3,4 milljónir punda
Lewis O'Brien til Los Angeles FC - Á láni
Jonathan Panzo til Rio Ave - Á láni
Marko Stamenic til Olympiakos - Á láni
Odysseas Vlachodimos til Newcastle - Óuppgefið kaupverð
Divock Origi til AC Milan - Var á láni
Gio Reyna til Borussia Dortmund - Var á láni
Wayne Hennessey - Samningur rann út
Felipe - Hættur
Cheikhou Kouyaté - Samningur rann út
Lykilmenn:
Murillo - Brasilíski varnarmaðurinn var gríðarlega mikilvægur fyrir Forest á síðasta tímabili. Kom sterkur inn á sínu fyrsta tímabili á Englandi og hefur verið mikið orðaður við stærri lið í sumar, þá sérstaklega Chelsea. Villtur en afskaplega sterkur miðvörður sem mun mikið mæða á í vetur.
Morgan Gibbs-White - Annar algjör lykilmaður fyrir Forest. Stærri félög horfðu til hans í sumar þegar það fréttist að félagið þyrfti að selja leikmenn, en Forest tókst að halda hann. Leikstjórnandinn á miðsvæðinu sem er með afskaplega mikil gæði. Ef hann getur tekið nokkur skref fram á við í sínum leik í vetur, þá gæti það farið langleiðina með að halda Forest uppi.
Chris Wood - Steig upp á réttum tímapunkti í fyrra þegar Taiwo Awoniyi meiddist. Skoraði mikilvæg mörk og tekur mikið til sín. Hann er líka með mikla reynslu úr ensku úrvalsdeildinni og kann að skora í þessari deild. Gott vopn fyrir liðið að hafa í teignum.
„Höfum ekki fallið síðan ég byrjaði að því"
Sólmundur Örn Jónsson er einn af mörgum stuðningsmönnum Nottingham Forest hér á Íslandi en við báðum hann um að segja okkur meira frá liðinu og hans áhuga á því. Hvernig byrjar maður að halda með Nottingham Forest?
Ég byrjaði að halda með Nottingham Forest að því að… Þegar ég var 13 ára flutti fjölskyldan til Nottingham í eitt ár og við vorum dugleg að fara á leiki á City Ground. Hef verið stuðningsmaður síðan.
Áttu uppáhalds minningu tengda félaginu þínu? Ætli það sé ekki þegar Jon Moss flautaði í lokaflautuna í 1-0 sigrinum á Huddersfield í umspilinu 2022, þegar okkur tókst loksins að koma okkur aftur í ensku úrvalsdeildina þar sem við eigum heima.
Uppáhalds leikmaður allra tíma? Klárlega Brice Samba. Hetjan í undanúrslitum umspilsins þegar hann varði þrjú víti á móti Sheffield United og hélt svo hreinu í úrslitunum. Var algjör sigurvegari á vellinum og algjör grínisti utan hans (og stundum inn á honum). Mér fannst hann virkilega vanmetinn hjá Forest þegar hann var þar og ég er ekki hissa að hann sé búinn að vinna sér inn sæti hjá franska landsliðinu í dag.
Hvernig fannst þér síðasta tímabil? Mér fannst það svo sem ekkert sérstakt, en það sem skiptir máli var að við héldum okkur uppi. Við skiptum um stjóra í desember og þá fannst mér þetta aðeins batna, en ég hefði samt viljað sjá okkur sleppa við fallbaráttu.
Ertu með einhverja sérstaka leikdagshefð? Klæði mig alltaf í treyjuna frá árinu sem við fórum upp. Höfum ekki fallið síðan ég byrjaði að því og vill meina að það sé alfarið mér að þakka.
Hvern má ekki vanta í liðið? Morgan Gibbs White. Það settu margir spurningarmerki við þessi kaup okkar á honum en hann hefur verið algjörlega frábær síðan hann mætti. Öll sóknin fer í gegnum hann og hann er ótrúlegur í að skapa færi úr engu.
Hver er veikasti hlekkurinn? Markmannsstaðan var klárlega veikasti hlekkurinn á síðast tímabili. Fengum á okkur allt of mörg mörk eftir markmannsmistök og enduðum á því að þurfa kaupa nýjann markmann í janúarglugganum, Mats Selz. Hann reyndist aðeins skárri en Turner og Vlachodimos, en ég er þó ekki alveg seldur á honum enn.
Þessum leikmanni á að fylgjast með… Murillo. Frábær ungur varnarmaður sem á virkilega bjarta framtíð fyrir sér. Hann er bara búinn að spila tvö tímabil sem atvinnumaður í fótbolta en það mætti halda að hann hafi verið að gera þetta í 10 ár. Hann gaf það fram nýlega að hann vildi halda áfram hjá Forest í allavega eitt ár í viðbót þannig vonandi verður hann jafn góður á þessu tímabili eins og hann var á því seinasta.
Við þurfum að kaupa… Mögulega nýjan hægri vængmann. Eigum auðvitað Elanga sem er klassa leikmaður en væri líklega gott að hafa backup þar. Annars finnst mér við hafa gert vel að fylla upp í þær stöður þar sem vantaði menn í þessum glugga.
Hvað finnst þér um stjórann? Er svo sem bara sáttur hingað til. Eina markmiðið þegar hann tók við var að halda okkur uppi, sem tókst, þannig hef ekkert út á hann að setja. Held að hann þurfi að byrja þetta tímabil vel, að því hann á ekki inni jafn marga sénsa og Steve Cooper hafði í fyrra.
Hvernig líður þér fyrir tímabilinu sem er framundan? Mér líður bara vel. Finnst við hafa styrkt okkur mikið í þessum glugga og losað okkur við leikmenn sem voru ekki nógu góðir. Sýnist andinn í liðinu vera góður og preseason búið að ganga vel. Held að við sleppum við fallbaráttuna þetta árið.
Hvar endar liðið? Ætla vera bjartsýnn og segja 10. sæti. COYR!
Þau sem spáðu: Arnar Laufdal Arnarsson, Brynjar Ingi Erluson, Elíza Gígja Ómarsdóttir, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Haraldur Örn Haraldsson, Jóhann Þór Hólmgrímsson, Ívan Guðjón Baldursson, Stefán Marteinn Ólafsson, Sverrir Örn Einarsson, Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke og Sölvi Haraldsson.
Liðin fengu eitt stig og upp í 20 eftir það hvar hver og einn spáði þeim. Liðið í síðasta sæti fékk eitt stig, liðið í 19. sæti tvö stig og koll af kolli. Stigin í spánni tengjast á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni..
Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. ?
11. ?
12. ?
13. ?
14. ?
15. ?
16. ?
17. ?
18. ?
19. Nottingham Forest, 37 stig
20. Ipswich Town, 27 stig
Athugasemdir