Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 06. október 2011 20:21
Kristbjörg Jónasdóttir
Umfjöllun: Valur úr leik í Evrópukeppninni
Frá leiknum í dag
Frá leiknum í dag
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hildur Antonsdóttir átti fínan leik á miðjunni
Hildur Antonsdóttir átti fínan leik á miðjunni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Málfríður Erna fyrirliði Vals vinnur boltann
Málfríður Erna fyrirliði Vals vinnur boltann
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valur tapaði sínum seinni leik gegn Glasgow City í Meistaradeild kvenna 3-0. Leikurinn fór fram á Hlíðarenda þar sem aðstæður til knattspyrnuiðkunar voru ágætar þrátt fyrir dálítinn kulda.

Fyrri leikur liðanna fór fram í Skotlandi þar sem úrslitin urðu 1-1 svo Glasgow City sigruðu samanlagt 4-1.

Glasgow City mun því mæta stórliðinu Turbine Potsdam sem sigraði Þór/KA, í 16 liða úrslitunum.

Valur 0-3 Glasgow City
0-1 Hallbera Guðný Gísladóttir (10‘, sjálfsmark)
0-2 Lisa Evans (60‘)
0-3 Lisa Evans (62‘)

Fyrstu mínútur fyrri hálfleiks voru fjörugar. Færi sköpuðust við báða enda vallarins en Glasgow City voru þó hættulegri.

Glasgow City fengu stórhættulegt færi á 5. mínútu þegar Leanne Ross komst ein í gegnum vörn Vals og inn í vítateig en Meagan McCray í marki Vals varði frábærlega.

Eina mark fyrri hálfleiks kom á 10. mínútu. Hallbera Guðný Gísladóttir gerðist þá sek um leiðinleg mistök þegar hún fékk fyrirgjöf skoska liðsins í sig og inn í markið.

Eftir markið róaðist leikurinn talsvert og lítið varð af hættulegum færum. Valsstúlkur fengu þó dauðafæri þegar Laufey Ólafsdóttir fékk góða sendingu frá Elínu Mettu Jensen, spilaði sig í gegnum vörn Glasgow og komst ein á móti markmanni en skot hennar fór framhjá.

Á síðustu mínútu fyrri hálfleiks fengu gestirnir í Glasgow City gott tækifæri til að bæta við öðru marki sínu. Jane Ross átti þá skot á markið sem Meagan rétt náði að setja fingurna í svo hann hafnaði í þverslánni.

Seinni hálfleikur byrjaði rólega. Í rauninni gerðist ekkert markvert fyrr en á 60. mínútu þegar gestirnir bættu við öðru marki sínu. Þá hafði Meagan farið út úr markinu til að ná fyrirgjöf, misst af henni svo boltinn barst til Lisu Evans sem renndi knettinum örugglega í netið.

Aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Lisa Evans sitt annað mark og þriðja mark gestanna. Hún spilaði sig upp nánast allan vinstri kantinn og skoraði framhjá Meagan í marki Vals. Slöpp varnarvinna hjá Valsstúlkum.

Valsstúlkur létu þriggja marka mun þó ekki buga sig og héldu áfram berjast. Þær fengu nokkur fín færi en tókst ekki að nýta þau.

Þegar u.þ.b. fimm mínútur voru eftir af leiknum fékk Kristín Ýr Bjarnadóttir gott færi til að minnka muninn. Markmaður Glasgow hafði þá farið út úr markinu til að senda boltann á samherja en hann fór beint á Kristínu sem skaut á opið markið en skotið framhjá.

Fleiru urðu mörkin ekki og lokatölur því 3-0. Verðskuldaður sigur Glasgow City í höfn og þær munu því mæta Turbine Potsdam 2. nóvember næstkomandi.

Lið Vals: Megan McCray (M), Málfríður Erna Sigurðardóttir (F), Mist Edvardsdóttir, Rakel Logadóttir, Elín Metta Jensen (Kristín Ýr Bjarnadóttir, 59’), Hallbera Guðný Gísladóttir, Caitlin Miskel, Hildur Antonsdóttir, Embla Grétarsdóttir, Hólmfríður Magnúsdóttir, Laufey Ólafsdóttir.

Lið Glasgow City: Claire Johnstone (M), Emma Mitchell, Eilish McSorley, Joanne Love (Emma Woolley, 82’), Jane Ross, Christie Murray (Katharina Lindner, 74’), Emma Fernon, Leanne Ross (F), Lisa Evans, Danica Dalziel, Clare Gemmell (Jill Patterson, 91’).

Maður leiksins: Hildur Antonsdóttir, Valur.

Aðstæður: Kalt í veðri en völlurinn þokkalegur.

Áhorfendur: 245.

Dómari: Gyöngyi Krisztina Gaál, slök.
banner
banner
banner
banner