„Fyrst og fremst er það frábært að vera kominn áfram í næstu umferð," sagði Sölvi Geir Ottesen þjálfari Víkinga eftir sögulegan 8-0 sigur gegn Malisheva í forkeppni Sambandsdeildarinnar.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 8 - 0 Malisheva
„Ég er mjög ánægður með frammistöðu liðsins í dag, við tengjum saman tvo góða hálfleiki. Það er ekki sjálfgefið að koma inn í seinni hálfleik með 5-0 forystu og halda áfram. Það á til með að hægast allt saman og menn verða kærulausir. Þeir voru það sannarlega ekki, og héldu bara áfram að hamra járnið. Sögulegt, segir þú, það er alltaf gaman að slá met og skrifa sig í sögubækurnar. Þetta er stór og flottur sigur, verðskuldað," sagði Sölvi.
Sölvi sagði leikmönnum sínum í hálfleik frá þessu meti, og vildi að þeir myndu fara inn í seinni hálfleikinn með það markmið að slá það.
„Ég nefndi það sem ákveðna gulrót til að halda áfram. Við viljum koma með gott 'momentum' inn í næsta leik hjá okkur. Það er stórleikur á móti Val næst. Það er oft þegar þú ert með 5-0 forskot, að það verður 'sloppy', við vildum bara koma með gott 'momentum' og halda áfram. Þannig á þetta að vera, það er aldrei tími til þess að slaka á í leikjum, sama hvernig staðan er," sagði Sölvi
Víkingur mætti Vllaznia frá Albaníu næst, en þeir gerðu allt vitlaust í fyrra á Hlíðarenda þegar þeir mættu Val. Sölvi vonast til að þeir hegði sér betur í ár.
„Þeir höguðu sér ekkert allt of vel þarna, en líkast til verður öryggisgæslan aðeins betri. Vonandi verður þetta bara hörku einvígi, okkur hlakkar til að mæta þeim. Við þurfum bara að klára verkefni í deildinni svo hugum við af því næst," sagði Sölvi.
Nikolaj Hansen skoraði þrennu í dag, en það hafa verið orðrómar í vikunni um að hann gæti mögulega farið.
„Ég vona það að Kári fari með Niko inn á skrifsofu hjá sér núna að setja blek á blað. Niko er bara búinn að vera hrikalega flottur hjá okkur núna og koma sterkur inn, bara eins og síðustu ár. Hann hefur verið mjög mikilvægur fyrir okkur bæði innan sem utan vallar, þvílíkur leiðtogi. Víkings legend, og öll lið þurfa svona karakter inn í hópinn sinn," sagði Sölvi.
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.