Ekitike áþjáður í að fara til Liverpool og hefur farið fram á sölu - Wissa vill frekar fara til Tottenham en Newcastle
   fös 18. júlí 2025 16:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Kári Árna: Auðvitað mikilvægast hvað við erum að gera
Daði er kominn aftur í Víking.
Daði er kominn aftur í Víking.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kári Árnason og Sölvi Geir Ottesen ræða málin.
Kári Árnason og Sölvi Geir Ottesen ræða málin.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta voru samræður sem við Sölvi (Geir Ottesen, þjálfari Víkings) áttum og þegar við vorum búnir að taka ákvörðunina, þá heyrðum við í Daða og fórum yfir stöðuna," segir Kári Árnason, yfirmaður fótboltamála hjá Víkingi, um fréttir dagsins að Daði Berg Jónsson sé aftur mættur í Víking eftir frábæra lánsdvöl hjá Vestra.

„Daði er búinn að standa sig frábærlega og við erum að fara inn í mjög erfiða törn. Við þurfum bara á öllum okkar styrk að halda. Daði mun koma inn og hjálpa okkur í þeirri baráttu," segir Kári jafnframt.

Daði Berg kom á láni til Vestra frá Víkingi fyrir tímabilið og hefur staðið sig frábærlega. Hann hefur verið einn af betri leikmönnum Bestu deildarinnar. Mun hann koma inn í stórt hlutverk hjá Víkingi?

„Hann er fullfær um það. En það er náttúrulega undir Sölva komið hvernig byrjunarliðið lítur út. Hann mun klárlega styrkja okkur, frábær leikmaður," segir Kári.

Hann er okkar leikmaður
Kári segir að það hafi auðvitað verið erfitt að tjá Vestramönnum það að Daði yrði kallaður til baka en hann verði fyrst og fremst að hugsa um hagsmuni Víkings.

„Það var erfitt. Við erum í góðum samskiptum við Samma og Davíð. Maður heldur með þeim, þetta er 'underdog story' sem er ótrúlega gaman að sjá," segir Kári og heldur áfram:

„Mér þykir virkilega leiðinlegt að eyðileggja fyrir þeim, að taka þeirra besta mann. Auðvitað er það leiðinlegt þar sem hann er búinn að standa sig frábærlega hjá þeim. Hann er hins vegar okkar leikmaður og fyrir mér er auðvitað mikilvægast hvað við erum að gera."

Daði kemur aftur til Víkings sem betri leikmaður.

„Daði er með mikið sjálfstraust og hann hefur sýnt það sem ég vissi alveg að byggi í honum. Þetta hefur alls ekki komið mér á óvart, að hann sé að springa út. Hann þurfti bara traustið."

„Hann kemur til baka með meiri reynslu og hefur sannað sig sem Bestu deildarleikmaður," sagði Kári að lokum.
Athugasemdir