Klúðruðu níu vítaspyrnum af fjórtán
Svíþjóð 2 - 2 England
1-0 Kosovare Asllani ('2)
2-0 Stina Blackstenius ('25)
2-1 Lucy Bronze ('79)
2-2 Michelle Agyemang ('81)
2-3 í vítaspyrnukeppni
1-0 Kosovare Asllani ('2)
2-0 Stina Blackstenius ('25)
2-1 Lucy Bronze ('79)
2-2 Michelle Agyemang ('81)
2-3 í vítaspyrnukeppni
Svíþjóð og England áttust við í 8-liða úrslitum Evrópumóts kvenna í kvöld og voru þær sænsku talsvert sterkari aðilinn í fyrri hálfleik.
Þær sænsku sköpuðu ótal úrvalsstöður og voru óheppnar að skora ekki meira en tvö mörk fyrir leikhléð. Kosovare Asllani skoraði fyrsta markið eftir slæm varnarmistök hjá Jessica Carter, sem gaf fyrst boltann frá sér og seldi sig gríðarlega ódýrt til að leyfa Asllani að skora úr dauðafæri.
Stina Blackstenius tvöfaldaði forystuna eftir að þær sænsku höfðu nokkrum sinnum komist nálægt því að skora. Hún slapp í gegn eftir frábæra stungusendingu frá Julia Zigiotti Olme og stakk Carter af í kappinu um boltann. Carter leit afar illa út í þessum kapphlaupi.
Þær ensku mættu grimmari út í síðari hálfleikinn og tóku stjórn á leiknum en þeim tókst ekki að minnka muninn fyrr en eftir fjórar skiptingar. Chloe Kelly kom inn af bekknum og gaf strax frábæra fyrirgjöf til að leggja upp fyrir Lucy Bronze og jafnaði Michelle Agyemang metin skömmu síðar eftir aðra fyrirgjöf frá Kelly. Hún skapaði þannig tvö mörk á þremur mínútum eftir innkomu sína af bekknum.
Þær sænsku vöknuðu aftur til lífsins eftir jöfnunarmarkið en hvorugu liði tókst að skora sigurmark á lokakaflanum svo flautað var til framlengingar.
Svíarnir voru eilítið sterkari í framlengingunni en það var ekki mikið um góð færi svo grípa þurfti til vítaspyrnukeppni.
Þar var gríðarlega mikið um dramatík þar sem báðar þjóðir klúðruðu tveimur af fyrstu þremur spyrnunum sínum. Staðan var því 1-1 í vítakeppninni þegar tvær spyrnur voru eftir á lið.
Jennifer Falk fór gjörsamlega á kostum á milli stanga Svía þar sem hún gerði sér lítið fyrir og varði þrjár vítaspyrnur í röð. Hún varði frá Lauren James, Bethany Mead og Alex Greenwood áður en hún steig sjálf á punktinn til að reyna að gera sigurmarkið úr fimmtu spyrnu Svía.
Hún þrumaði boltanum hins vegar yfir markið en það gerði ekkert til, því hún varði næstu spyrnu frá Grace Clinton. Sofia Jakobsson fékk þá tækifæri til að sigra fyrir Svíþjóð en hún lét verja frá sér.
Lucy Bronze skoraði örugglega úr sjöundu spyrnu Englendinga og reyndist það sigurmarkið því ótrúlega stressuð 18 ára Smilla Holmberg þrumaði yfir úr lokaspyrnunni.
Þetta þýðir að England mætir Ítalíu í undanúrslitunum.
Athugasemdir