Sky á Ítalíu greinir frá áhuga AC Milan á danska framherjanum Rasmus Höjlund sem virðist ekki eiga framtíð hjá Manchester United.
Milan er í leit að nýjum framherja og vill komast að því hvort hægt sé að semja við Rauðu djöflana um kaupverð.
Talið er að Man Utd vilji fá um 50 milljónir punda til að selja Höjlund í sumar, en leikmaðurinn sjálfur hefur sagst vilja vera áfram til að berjast um byrjunarliðssæti undir stjórn Rúben Amorim.
Höjlund er 22 ára gamall og hefur skorað 26 mörk í 95 leikjum á tveimur árum í Manchester. Hann er með þrjú ár eftir af samningi sínum við félagið eftir að Man Utd keypti hann fyrir tveimur árum síðan.
Rauðu djöflarnir borguðu 72 milljónir punda til að kaupa hann frá Atalanta sumarið 2023.
Talið er að Milan vilji ekki greiða meira en 20 til 30 milljónir punda fyrir nýjan framherja til að berjast við Santi Giménez um byrjunarliðssæti.
Höjlund og Joshua Zirkzee eru framherjarnir í leikmannahópi Man Utd ásamt hinum ungu Chido Obi og Ethan Wheatley.
Athugasemdir