
Banzuzi í leik með hollenska landsliðinu. Þarna stendur hann andspænis Désiré Doué, sem er í dag lykilmaður í ótrúlega öflugum sóknarleik PSG.
Þýska félagið RB Leipzig hefur verið í sókn í sumarglugganum og kynnti tvo nýja leikmenn til leiks á síðustu dögum. Annar þeirra er kantmaðurinn Johan Bakayoko sem var afar eftirsóttur og kemur úr röðum Hollandsmeistara PSV Eindhoven og hinn er Kosta Nedeljkovic sem kemur aftur á láni frá Aston Villa.
Bakayoko er dýrasti leikmaður sem Leipzig hefur keypt inn í sumar en þeir eru nokkrir sem komast nálægt þeirri upphæð því Leipzig hefur eytt rúmlega 30 milljónum evra í þrjá aðra leikmenn.
Ezechiel Banzuzi kostaði til að mynda rúmlega 15 milljónir evra og kemur úr röðum OH Leuven í Belgíu. Banzuzi lék með Jóni Degi Þorsteinssyni hjá Leuven eftir að hafa verið samherji Elíasar Más Ómarssonar hjá NAC Breda.
Banzuzi er fjölhæfur miðjumaður sem hefur oft verið líkt við samlanda sinn Ryan Gravenberch. Hann hefur verið eftirsóttur síðasta árið og var næstum búinn að skipta yfir til West Ham í enska boltanum í janúarglugganum.
Andrija Maksimovic er einnig kominn til félagsins og kostaði hann rétt tæpar 15 milljónir evra. Leipzig kaupir hann úr röðum Crvena zvezda, Rauðu stjörnunnar í Belgrad.
Maksimovic er ekki nema 18 ára gamall og leikur sem sóknartengiliður. Hann gat valið á milli ýmissa félagsliða en samlandi hans Kosta Nedeljkovic hjálpaði honum að taka ákvörðun.
Maksimovic þykir ótrúlega efnilegur og hefur nú þegar spilað 8 A-landsleiki fyrir Serbíu.
Að lokum var vinstri bakvörðurinn Max Finkgräfe keyptur úr röðum Kölnar.
Leipzig greiðir ekki nema tæplega 5 milljónir til að kaupa þennan unga vinstri bakvörð sem á tvo leiki að baki fyrir U20 landslið Þýskalands.
Eintracht Frankfurt og Stuttgart reyndu einnig að kaupa Finkgräfe en bakvörðurinn kaus að skipta til Red Bull samsteypunnar.
Mögulegt byrjunarlið 2025-26
Gulacsi - Nedeljkovic, Bitshiabu, Lukeba, Raum - Seiwald, Banzuzi - Bakayoko, Simons, Openda - Sesko
It's been a busy day in Leipzig ???? pic.twitter.com/3BtQmYwuT7
— RB Leipzig English (@RBLeipzig_EN) July 16, 2025
Athugasemdir