„Tilfinningin er frábær eftir þennan sigur. Það er náttúrulega smá skrítið að vera vinna 3-0 og samt ætla fara vinna leikinn, en okkur tókst það sem er bara geggjað og sýnir hversu gott lið við erum með," segir Adam Ægir Pálsson, leikmaður Vals, við Fótbolta.net eftir 1-2 útisigur á Flora Tallinn í 1. umferð forkeppninnar í Sambandsdeildinni. Leikurinn í dag fór fram í höfuðborg Eistlands, Tallinn og sigurinn var sjöundi sigur Vals í röð í öllum keppnum.
Leikurinn í dag var seinni leikurinn í einvíginu og Valur vann það samanlagt 5-1.
Leikurinn í dag var seinni leikurinn í einvíginu og Valur vann það samanlagt 5-1.
Lestu um leikinn: Flora Tallinn 1 - 2 Valur
„Það kom mér smá á óvart hversu mikið betri þeir voru á boltann í þessum leik miðað við fyrri leikinn, þetta var í raun allt annað lið en mætti á Hlíðarenda."
Adam kom inn í byrjunarliðið frá síðasta leik. „Það er ljúft að fá kallið í Evrópuleik, var búinn að bíða eftir öðrum byrjunarliðsleik eftir KA leikinn og hann kom á góðum tíma. Vonandi náði maður að setja smá pressu á þjálfarateymið að tengja saman tvo leiki núna."
Fyrsta mark leiksins var stórkostleg, Tryggvi Hrafn skoraði með skoti fyrir aftan miðju sem flaug yfir markmann Flora og beint í netið.
„Fyrsta markið kom eftir sturlaða pressu frá mér og, jújú, svo ágæt afgreiðsla hjá mínum manni Tryggva," segir Adam á léttu nótunum. En hvað hugsaði hann þegar hann sá Tryggva láta vaða?
„Fyrsta sem ég hugsaði var bara neiiiii, gefðu hann, en svo var þetta bara geðsjúkt skot."
„Seinna markið var líka helvíti flott þar sem við spiluðum vel upp kantinn og svo virkilega snyrtileg afgreiðsla frá Johnny Money (Jónatani Inga Jónssyni). Geðveikt að ná að vinna leikinn fyrir okkur, erum búnir að vera á sigurbraut og höldum því áfram."
Adam lék á vinstri kantinum og fyrir aftan hann var Sigurður Egill Lárusson sem hefur spilað flesta leiki í sögu félagsins í efstu deild.
„Það er bara drullu gaman að spila með einn af mínum bestu vinum fyrir aftan mig. Þó að hann geti verið með stóran kjaft, þá er hann geðveikur leikmaður og það er alltaf hægt að treysta á kónginn."
Hvernig eru aðstæðurnar úti? „Aðstæðurnar eru geðveikar, hótelið mjög flott og mér gengur ágætlega í Uno líka, þetta eru alltaf skemmtilegar ferðir. Leikvangurinn var geggjaður, eitthvað sem KSÍ mætti skoða..."
Adam bauð svo upp á hrós í lok viðtalsins. „Þetta var gríðarlega vel upp settur leikur hjá þjálfarateyminu, varnarlínan var geggjuð og leikplanið gekk fullkomlega upp," segir Adam.
Næst á dagskrá hjá Val er stórleikur gegn Víkingi á sunnudag og svo er einvígi gegn Kauno Zalgiris í 2. umferð forkeppninnar í Sambandsdeildinni.
Athugasemdir