Ítalíumeistarar Napoli eru við það að landa serbneska landsliðsmarkverðinum Vanja Milinkovic-Savic.
Napoli kaupir markvörðinn úr röðum Torino en Manchester United og Leeds United eru meðal félaga sem sýndu honum einnig áhuga í sumar.
Milinkovic-Savic er 28 ára gamall og hefur verið meðal betri markvarða ítölsku deildarinnar undanfarin ar. Hann er búinn að vera aðalmarkvörður hjá Torino síðustu fjögur ár, en eldri bróðir hans er miðjumaðurinn Sergej Milinkovic-Savic.
Napoli þarf að greiða um 20 milljónir til að kaupa markvörðinn, sem er aðeins með eitt ár eftir af samningi sínum við Torino.
Sky Sports greinir frá þessu og tekur Fabrizio Romano undir. Romano bætir því við að kantmaðurinn Cyril Ngonge sé á leið til Torino á lánssamningi frá Napoli. Torino borgar eina milljón fyrir lánssamninginn og fær 11 milljóna kaupmöguleika.
Napoli er þessa dagana einnig að ganga frá kaupum á framherjanum Lorenzo Lucca. Hingað til er félagið búið að krækja í Kevin De Bruyne og Luca Marianucci í sumarglugganum, auk Noa Lang sem var tilkynntur fyrr í dag.
Lucca er 24 ára gamall og mun kosta um 40 milljónir evra í heildina. Hann kemur á lánssamningi með kaupskyldu næsta sumar.
Napoli greiðir því samtals um 60 milljónir fyrir þessa tvo leikmenn.
Athugasemdir