Veggur í viðræðum Man Utd um Mbeumo - Chelsea vill Rogers - Ekitike og Isak sápuóperan heldur áfram
banner
   fim 17. júlí 2025 13:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Ljóst að það þarf að færa tvo leiki Breiðabliks
Breiðablik pakkaði Egnatia saman, 5-0, á þriðjudag.
Breiðablik pakkaði Egnatia saman, 5-0, á þriðjudag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Blikar mættu með rútu í Víkina í ágúst 2023.
Blikar mættu með rútu í Víkina í ágúst 2023.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingur vann heimaleikinn gegn Santa Coloma í Sambandsdeildarumspilinu í fyrra og komst í deildarkeppnina.
Víkingur vann heimaleikinn gegn Santa Coloma í Sambandsdeildarumspilinu í fyrra og komst í deildarkeppnina.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Nóg að gera hjá Blikum næstu vikur.
Nóg að gera hjá Blikum næstu vikur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Með sigrinum gegn Egnatia á þriðjudag tryggði Breiðablik sér að minnsta kosti sex fleiri leiki í Evrópu, og munu þeir fara fram næstu sex vikurnar. Ef leikurinn hefði ekki unnist hefði Breiðablik einungis verið öruggt með tvo leiki til viðbótar.

Breiðablik mætir á næstu tveimur vikum pólsku meisturunum í Lech Poznan í 2. umferð forkeppninnar í Meistaradeildarinnar. Sigurvegarinn þar fer í 3. umferð forkeppninnar í Meistaradeildarinnar en tapliðið fer í 3. umferð forkeppninnar í Evrópudeildinni. Úr þessu, í allra versta falli fer Breiðablik í umspil um sæti í Sambandsdeildinni; spilar einvígi í síðustu umferð forkeppninnar í Sambandsdeildinni um sæti í sjálfri deildarkeppninni. Liðið mun því spila Evrópuleik í miðri viku út ágúst.

Þegar horft er á leikjaplanið hjá Blikum er ljóst að það þarf að færa tvo leiki. Breiðablik á skráðan heimaleik gegn KA í vikunni eftir Verslunarmannahelgina. Sá leikur er skráður á þriðjudag en ljóst er að flýta þarf þeim leik, færa hann á helgi og seinka öðrum leik í staðinn, eða seinka honum til september.

Leikur ÍA og Breiðabliks er svo settur á sunnudaginn 24. ágúst sem er á milli umspilsleikja í Evrópukeppni. Þeim leik vill Breiðablik fá frestað því ljóst er að gífurlega mikið verður undir í Evrópuleikjunum.

Eftirminnilega var leik Víkings og Breiðabliks ekki frestað árið 2023 sem endaði með rútuferð úr Smáranum í Víkina og flestir lykilmenn Blika hvíldu í þeim leik. Í fyrra var Víkingur í sömu stöðu og fékk leik gegn KR frestað fram í september.

Þegar er búið að gera eina breytingu á upprunalegri dagskrá Breiðabliks því leikur liðsins gegn KR fer fram annan laugardag, en ekki sunnudaginn 27. júlí eins og upphaflega var stillt upp. Það hentar Blikum betur að spila á laugardegi því miðvikudaginn eftir leikinn gegn KR spilar liðið seinni leikinn gegn Lech Poznan og fær því aukadag í undirbúningi fyrir þann leik.

Næsti leikur Breiðabliks er gegn Vestra núna á laugardag, Blikar halda svo til Póllands á sunnudag og mæta Lech Poznan í fyrri leik liðanna á þriðjudag.

Leikjaplan Breiðabliks næstu vikur
laugardagur 19. júlí
14:00 Breiðablik-Vestri (Kópavogsvöllur)

þriðjudagur 22. júlí
18:30 Lech Poznan-Breiðablik (Poznan Stadium)

laugardagur 26. júlí
17:00 KR-Breiðablik (Meistaravellir)

miðvikudagur 30. júlí
18:30 Breiðablik-Lech Poznan (Kópavogsvöllur)

þriðjudagur 5. ágúst*
19:15 Breiðablik-KA (Kópavogsvöllur)

5.-7. ágúst 3. umferð í Evrópu (fyrri leikur)

sunnudagur 10. ágúst
19:15 Valur-Breiðablik (N1-völlurinn Hlíðarenda)

12.-14. ágúst 3. umferð í Evrópu (seinni leikur)

sunnudagur 17. ágúst
19:15 Breiðablik-FH (Kópavogsvöllur)

19.-21. ágúst umspil í Evrópu (fyrri leikur)

sunnudagur 24. ágúst*
17:00 ÍA-Breiðablik (ELKEM völlurinn)

26.-28. ágúst umspil í Evrópu (seinni leikur)

sunnudagur 31. ágúst
19:15 Víkingur R.-Breiðablik (Víkingsvöllur)

* Leikir sem þarf að færa
Athugasemdir
banner