„Ég hef alveg verið betri," sagði Samúel Samúelsson, formaður meistaraflokksráðs karla hjá Vestra, þegar fréttamaður Fótbolta.net sló á þráðinn til hans í dag.
Vestri var að missa algjöran lykilmann í Daða Berg Jónssyni aftur til Víkings, en hann var á láni hjá félaginu fyrri hluta tímabilsins. Daði hefur spilað stórkostlega með Vestra og verið einn öflugasti leikmaður Bestu deildarinnar, en Víkingar hafa nú ákveðið að kalla hann til baka.
Vestri var að missa algjöran lykilmann í Daða Berg Jónssyni aftur til Víkings, en hann var á láni hjá félaginu fyrri hluta tímabilsins. Daði hefur spilað stórkostlega með Vestra og verið einn öflugasti leikmaður Bestu deildarinnar, en Víkingar hafa nú ákveðið að kalla hann til baka.
„Þetta er svo sem ekki í okkar höndum. Við vissum alltaf að þetta gæti komið til, þannig eru lánssamningar. Auðvitað kemur þetta samt okkur á óvart í ljósi þess að hér er Daði að spila stórt hlutverk og það var tilgangurinn með láninu," sagði Sammi.
„Ég hefði talið það betra fyrir leikmanninn að vera hér og spilað 90 mínútur í hverjum leik; halda áfram að þróast í rétt átt fyrir Víking. Væntanlega eru þeir að fara að setja hann í stórt hlutverk innan Víkings fyrst þeir eru að kalla hann til baka. Ég neita að trúa öðru. Hann hlýtur að byrja næsta leik."
„Út frá þeim forsendum þegar lánssamningurinn var gerður þá kemur það okkur á óvart að þessi ákvörðun sé tekin. En út frá því hvernig Daði hefur staðið sig hjá Vestra... ég held ekki einu að Víkingarnir hafi einu sinni gert ráð fyrir því að hann myndi standa sig eins vel og hann hefur gert. Það var ekki pláss í hópnum hjá þeim fyrir mót en þeir hafa bætt við Óskari Borgþórssyni og einum Dana, og samt telja þeir sig hafa not fyrir hann núna. Það kemur mér pínu á óvart."
Staðið sig frábærlega og er góður drengur
Daði hefur staðið sig gífurlega vel með Vestra og þróast mikið sem fótboltamaður.
„Daði hefur staðið sig frábærlega fyrir okkur og er góður drengur. Fótbolti er númer eitt, tvö og þrjú hjá honum. Það eru svoleiðis menn sem við viljum hafa í umhverfinu hjá okkur. Það er frábært að við getum hjálpað mönnum að koma sér á kortið og að taka næstu skref. En auðvitað eru það mikil vonbrigði að missa hann og sérstaklega á þessum tímapunkti," segir Sammi en Vestri er að berjast um Evrópusæti og er liðið einnig komið í úrslitaleik í Mjólkurbikarnum.
Vestramenn þurfa núna að taka upp símann og skoða leikmannamarkaðinn.
„Við verðum að fá einhvern inn í staðinn. Hópurinn er ekki það stór fyrir að við höfum mátt við því að missa mikið úr honum. Þetta klárlega kallar á það að við þurfum að fá mann inn í staðinn," sagði Sammi.
Þá sendirðu hann til Ísafjarðar
Það hefur gengið vel fyrir unga leikmenn að fara vestur og fá þar að spila. Annað dæmi er Benedikt Warén sem var svo seldur á mikinn pening í Stjörnuna. Núna er Daði svo farinn aftur í Víking eftir frábæran tíma hjá Vestra.
„Við erum alveg opnir með það að ef við sjáum stráka sem við teljum að geti blómstrað hér fyrir vestan, þá sækjum við þá. Við erum ekki að sækja leikmenn í von og óvon. Við getum ekki verið með 25 manna leikmannahóp og þess vegna verðum við að treysta á það sem við veljum og spila þeim. Menn sem velja að koma vestur, þeir eru að koma vestur í hlutverk," sagði Sammi.
„Við þurfum að fara að hringja símtöl og sjá hvað er í boði. Ef það er eitthvað félag út í heimi sem vill koma leikmanninum sínum í spiltíma og láta hann vaxa í verði, þá sendirðu hann til Ísafjarðar."
„Við þurfum eitthvað að skoða þetta, hvar landið liggur og hvort við getum fundið einhvern í staðinn fyrir Daða. Það er klárt," sagði Sammi að lokum.
Athugasemdir