AC Milan er í viðræðum við Brighton um kaup á vinstri bakverðinum Pervis Estupinan sem er eftirsóttur af Manchester United.
Ítalska stórveldið er í mikilli uppbyggingu eftir vonbrigðatímabil á síðustu leiktíð og er búið að næla sér í miðjumennina Luka Modric og Samuele Ricci í sumar, eftir sölu á Tijjani Reijnders. Félagið er núna í leit að vinstri bakverði til að taka við keflinu af Theo Hernández sem er farinn til Sádi-Arabíu.
Estupinan er með tvö ár eftir af samningi sínum við Brighton. Hann er 27 ára gamall og er afar framsækinn bakvörður sem býr yfir miklum hraða og góðri sendingagetu.
Hann viðurkenndi í viðtali í júní að hann gæti yfirgefið Brighton í sumar og er félagið í kjölfarið búið að kaupa vinstri bakvörðinn Maxim De Cuyper. Hann kemur til Brighton skömmu eftir kaup á Ferdi Kadioglu og því eru þrír vinstri bakverðir í hóp sem stendur, einum meira en þörf er á.
Brighton er talið vilja fá á milli 30 og 40 milljónir punda fyrir bakvörðinn sinn, sem lék seinni hálfleikinn í æfingaleik gegn Stoke City í gærkvöldi.
Estupinan er sagður vera spenntari fyrir því að ganga í raðir Man Utd heldur en Milan, en Rauðu djöflarnir eru einnig að skoða aðra bakverði.
Brighton er einnig í viðræðum við AS Roma frá Ítalíu sem er að reyna að fá Evan Ferguson og Matt O'Riley til sín.
Athugasemdir