Veggur í viðræðum Man Utd um Mbeumo - Chelsea vill Rogers - Ekitike og Isak sápuóperan heldur áfram
   fim 17. júlí 2025 18:40
Ívan Guðjón Baldursson
Hamrarnir reyna að stela Walker-Peters á elleftu stundu
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Sky Sports greinir frá því að West Ham United sé búið að blanda sér í baráttuna um hægri bakvörðinn Kyle Walker-Peters, sem er búinn að gefa munnlegt samþykki fyrir samningi hjá tyrkneska stórveldinu Besiktas.

Walker-Peters rann út á samningi hjá Southampton í sumar og neitaði að skrifa undir nýjan samning við félagið. Hann er með nokkur samningstilboð á borðinu en var aðeins búinn að gefa munnlegt samþykki til Besiktas þar til Hamrarnir blönduðu sér í spilið.

Walker-Peters er 28 ára gamall og hefur verið orðaður við ýmis félög í ensku úrvalsdeildinni en ekkert hefur lagt fram nægilega gott samningstilboð. Mögulegt er að West Ham breyti því.

Leikmaðurinn er spenntur fyrir Hömrunum. Hann var búinn að bóka flug til að fara í læknisskoðun í Tyrklandi en er búinn að fresta ferðinni eftir að hafa heyrt af áhuga frá West Ham.

Graham Potter þjálfari vill bæta varnarmanni við hópinn fyrir æfingaferð liðsins sem fer til Bandaríkjanna eftir helgi.

Aaron Wan-Bissaka er eini hægri bakvörðurinn í hóp hjá West Ham sem stendur, eftir að Vladimir Coufal rann út á samningi.

Walker-Peters er sagður hafa meiri áhuga á að spila í ensku úrvalsdeildinni heldur en í Tyrklandi en hann er með þokkalega háar launakröfur.
Athugasemdir
banner