Framherjinn þaulreyndi Pierre-Emerick Aubameyang er búinn að semja við Al-Qadsiah um starfslok.
Aubameyang yfirgefur félagið þó hann eigi ár eftir af samningi sínum, til að skapa pláss fyrir ítalska landsliðsframherjann Mateo Retegui.
Al-Qadsiah er að borga 65 milljónir evra til að kaupa Retegui úr röðum Atalanta og fær hann risasamning hjá sádi-arabíska félaginu.
36 ára gamall Aubameyang, sem kom að 24 mörkum í 36 leikjum á sínu fyrsta tímabili með Al-Qadsiah, snýr því aftur til Frakklands þar sem hann er í samningaviðræðum við sitt fyrrum félag Marseille.
Aubameyang gerði frábæra hluti hjá Marseille áður en hann skipti til Al-Qadsiah. Hann kom að 41 marki í 51 leik með franska stórveldinu tímabilið 2023-24 og er spenntur fyrir að leika aftur í Meistaradeild Evrópu. Roberto De Zerbi er þjálfari Marseille sem endaði í öðru sæti frönsku deildarinnar á síðustu leiktíð.
Aubameyang gerði garðinn frægan sem framherji Borussia Dortmund, Arsenal, Barcelona og Chelsea áður en hann skipti til Marseille.
Athugasemdir