Mainoo fær nýjan samning - Goretzka og Gomes orðaðir við Man Utd - Bremer og Kerkez við Liverpool
   þri 16. júní 2009 12:19
Magnús Már Einarsson
2.deild: Hvað er að frétta af Gróttu?
Ásmundur Haraldsson.
Ásmundur Haraldsson.
Mynd: Austurglugginn/Gunnar
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Mynd: Austurglugginn/Gunnar
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þá er komið að liðnum "Hvað er að frétta?" hér á Fótbolti.net en þar kíkjum við á stemninguna hjá liðum í fyrstu, annarri og þriðju deild.

Að þessu sinni kíkjum við á stemninguna hjá Gróttu sem leikur í annarri deild en á fimmtudag mætir liðið nágrönnum sínum í KR í 32-liða úrslitum VISA-bikarsins.

Ásmundur Guðni Haraldsson spilandi þjálfari Gróttu svaraði nokkrum spurningum.

Hvernig er stemningin hjá Gróttu þessa dagana?
Stemmningin hjá Gróttu er í góðu lagi þessa dagana. Erum á ágætis róli í deildinni, stórleikur í VISA bikarnum á næsta leiti og svo eru framkvæmdir við Gróttuvöllinn í algleymi svo það er allt í standi útá Nesi myndi ég halda.

Er mikill fótboltaáhugi á Seltjarnarnesi?
Það er mikill fótboltaáhugi á Nesinu enda margir Gróttarar og KR-ingar búsettir þarna vesturfrá. Það er að sjálfsögðu mikill fótboltaáhugi hjá krökkunum og þá sérstaklega strákunum. Stelpurnar eru farnar að sækja á og við erum með æfingar fyrir stelpur á aldrinum 8-16 ára. Fótboltinn hefur verið í öðru sæti hérna á nesinu á eftir handboltanum hvað varðar áhorfendafjölda en við erum að sækja á. Það fjölgar í stúkunni hjá okkur með hverjum leiknum og fólk er farið að sýna heimaliðinu meiri áhuga enda aðstaðan hjá okkur orðin alveg hreint til fyrirmyndar og það verður gaman að sjá stúkuna troðfulla á fimmtudaginn þegar að KR og Vesturbærinn kemur í heimsókn útá Nes.

Er ekki mikil spenna fyrir bikarleikinn gegn KR á fimmtudag?
Jú að sjálfsögðu er mikil spenna fyrir leikinn á fimmtudag enda ekki á hverjum degi sem að úrvalsdeildarlið KR kemur í heimsókn. Það eru allir á fullu hérna við að gera þetta sem skemmtilegast og flottast svo að allir áhorfendur geti notið þessa einstaka viðburðar á nesinu.

Má búast við fjölmennum stuðningsmannahópi Gróttu á leiknum?
Ég ætla rétt að vona það. Það búa um 4500 manns á Seltjarnarnesinu og ég trúi ekki öðru en að fólk fjölmenni á leikinn. Reyndar búa nokkrir KR-ingar hérna líka en þeir hljóta að mæta líka. Það hafa klárlega verið einhverjir laumu-Gróttarar á vappi, bæði hér á Nesinu og í Vesturbænum síðustu árin og núna er tíminn fyrir þá að hætta því rugli og mæta á leikinn, helst bláklæddir og með gular húfur, enda vill enginn missa af þessum leik.

Ertu sáttur við byrjun ykkar í sumar?
Svona já og nei. Ég vil að sjálfsögðu vinna alla leiki en liðin í deildinni eru mörg hver bara mjög sterk og erfitt að eiga við þau. Við höfum líka notið góðs af því núna að vera með stóran hóp en ég hef verið með einhverja 7 leikmenn í erfiðum meiðslum frá því fyrir mót. En við erum með stóran hóp og við leysum það bara eins og við best getum.

Munar ekki miklu um að hafa fengið reynslubolta eins og Kristján Finnbogason og Sigurvin Ólafsson í liðið?
Það segir sig sjálft að þeir styrkja liðið gríðarlega enda frábærir fótboltamenn með gríðarlega reynslu. Þeir eru báðir í góðu standi og hafa æft vel í vetur. Við erum með nokkra unga Fálka og þeir njóta góðs af því að leika með þessum mönnum sér við hlið. Við höfum líka aðra reynslubolta í liðinu sem hafa ýmist verið í sviðsljósinu áður eins og Sölvi Davíðsson, Árni Ingi Pjetursson og Brynjólfur Bjarnason en einnig leikmenn sem eiga orðið yfir 100 leiki með Gróttu eins og Garðar Guðnason og Ásgrímur Sigurðsson. Klárlega miklir reynsluboltar sem að hjálpa okkur mjög mikið.

Hver er helsti styrkleiki ykkar?
Ég myndi segja að það væri Fálkaandinn. Það er stór og góður hópur sem er tilbúinn til að vinna fyrir liðið og hvern annan. Það eru margir mjög léttir og skemmtilegir Fálkar í hópnum og það er gaman hjá okkur á æfingum og í leikjum. Við erum búnir að æfa vel í vetur og það hefur verið mikil samkeppni um stöður og menn þurfa að berjast fyrir því að komast í hóp. En þeir sem að eru fyrir utan hópinn eru mjög þolinmóðir og eru tilbúnir til þess að setja sjálfa sig til hliðar fyrir liðið. Við þurfum stóran hóp til þess að komast í gegnum þetta langa og stranga mót enda mikið af meiriháttar skemmtilegum ferðalögum útá land sem að eykur mjög á álagið. Meira en menn gera sér grein fyrir.

Hver eru markmið ykkar fyrir sumarið?
Markmið okkar eru tiltölulega einföld. Við ætlum að sigra Vesturbæjarbikarinn og svo stefnum við á 1.deildina.

Hvað hefur komið þér mest á óvart í byrjuninni í 2.deildinni?
Ekkert í sjálfu sér. Þó hafa sum liðin byrjað verr eða betur en ég átti von á. En þessi deild er erfið og það geta allir unnið alla. Deildirnar hafa jafnast töluvert út eftir fjölgunina og á næstu 2-3 árum verða neðri deildirnar enn þéttari og erfiðari svona þegar að þessar tilfæringar hafa fundið sinn farveg.

Hvaða lið heldur þú að muni berjast um að fara upp í 1.deild?
Það er ómögulegt að segja á þessum tímapunkti en það eru þó nokkur lið sem að geta verið í baráttunni því ég tel að það verði ekkert eitt eða tvö lið sem að komi til með að stinga af líkt og í fyrra. Við ætlum okkur að sjálfsögðu að vera þarna í baráttunni ásamt Reyni og Hvöt. En hvað veit maður.

Eitthvað að lokum?
Ég vil bara hvetja alla Gróttumenn og Seltirninga til að fjölmenna á völlinn á fimmtudaginn kemur. Bara hvet alla fótboltaáhugamenn til að koma og verða vitni að þessum viðburði á Nesinu. Í 42 ára sögu Gróttu hefur félagið aldrei spilað við nágranna okkar úr KR á Íslandsmóti eða Bikarkeppni í meistaraflokki karla. En eins og bikarkeppnin er þá getur allt gerst og ég held að það það yrði nú sögulegur viðburður ef að Gróttan myndi slá KR út úr Bíkarnum. En KR-liðið er gríðarlega sterkt um þessar mundir og stjörnuleikmenn í hverri stöðu sem og á varamannabekknum. Þeir koma klárlega alveg brjálaðir í þennan leik því ég myndi telja að enginn leikmaður KR vildi vera bendlaður við það KR-lið sem að myndi tapa fyrir litla liðinu af Nesinu. Því þá við höfum við strákarnir, vestan við Ljónið, mont-réttinn í amk eitt ár eða þar til liðin mætast að nýju. Vonandi í úrvalsdeild eftir nokkur ár. Þeir hafa því öllu að tapa en við nákvæmlega engu. En þvílíkur gleðitími sem það yrði fyrir Nesið eftir að hafa verið minna liðið í Vesturbænum í ein 42 ár. Áfram Grótta!

Eldra úr liðnum "Hvað er að frétta?"

1.deild:
Fjarðabyggð (10.júní)
ÍR (29.maí)
KA (15.maí)
Leiknir R. (29.maí)
Víkingur Ólafsvík (26.mars)
Þór (15.maí)

2.deild:
BÍ/Bolungarvík (29.apríl)
Hamar (21.apríl)
ÍH/HV (17.apríl)
Reynir Sandgerði (3.apríl)
Víðir Garði (21.maí)

3.deild:
Árborg (14.maí)
Berserkir (1.maí)
Draupnir (25.mars)
Einherji (16.apríl)
Huginn (29.maí)
KB (11.júní)
KFG (10.júní)
KFK (20.maí)
KFR (31.mars)
KFS (30.apríl)
Leiknir Fáskrúðsfirði (12.júní)
Léttir (8.maí)
Skallagrímur (11.júní)
Athugasemdir
banner
banner