Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mán 09. janúar 2023 14:17
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Völsungur enn að leita að þjálfara - „Það er langt út á land"
Völsungur er án þjálfara.
Völsungur er án þjálfara.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Völsungur á Húsavík er enn í þjálfaraleit eftir að Jóhann Kristinn Gunnarsson hætti með liðið í kjölfarið á síðasta tímabili.

Jóhann Kristinn, sem tók við Þór/KA, hafði stýrt liðinu í sex ár samfleytt og þar áður í þrjú ár. Undir hans stjórn endaði Völsungur í þriðja sæti 2. deildar á síðasta tímabili.

„Það er langt út á land, en við teljum okkur geta komist að lendingu sem við verðum sáttir með," segir Ingvar Björn Guðlaugsson í meistaraflokksráði karla hjá Völsungi í samtali við Fótbolta.net.

Hann viðurkennir að það hafi verið vonbrigði að Jóhann Kristinn hafi hætt, en hann var þeirra fyrsti kostur í starfið.

„Við stefndum á að hann yrði áfram, en hann vildi breyta til eftir langan tíma í sama starfi," segir Ingvar og bætir við:

„Undirbúningstímabilið er byrjað. Alli Jói (þjálfari kvennaliðsins) er með æfingar um þessar mundir. Við erum að spila á mjög ungum hópi akkúrat núna. Við tókum leik á móti Dalvík/Reyni í Kjarnafæðismótinu og það endaði 1-1."

Ingvar segir að það hafi verið farið í góðar viðræður við nokkra þjálfara en það er erfitt fyrir menn að flytja út á land með fjölskyldu sína. „Við erum að vonast til að klára þetta á næstunni, mjög fljótlega."
Athugasemdir
banner
banner
banner