| mið 05.apr 2023 13:52 Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð |
|
Annar leikmaðurinn úr 180 manna þorpinu sem kemur hingað til lands
Það má segja að það hafi verið smávægileg færeysk bylting í íslenska fótboltanum undanfarið. Nokkrir færeyskir leikmenn hafa komið hingað til lands og eru til að mynda þrjú efstu liðin í fyrra öll búin að sækja Færeying í sitt lið. Þar á meðal er framherjinn Pætur Petersen sem samdi við KA eftir að hafa átt mjög gott tímabil með HB í fyrra en hann er annar leikmaður úr 180 manna þorpi í Færeyjum sem kemur hingað til lands til að spila fótbolta.
Patrik hér í leik með Breiðabliki gegn Víkingi í gær. Hann átti mjög góðan leik þar.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það er ekki mikill snjór núna, en það er búið að snjóa allan veturinn. Þetta er öðruvísi en heima, miklu meiri snjór. Við fáum stundum snjó þar en ekki svona lengi og ekki svona mikið."
„Ég hef átt mjög jákvæða reynslu á Akureyri. Ég hélt að þetta væri einhver smábær á Íslandi en bærinn er miklu stærri og nútímalegri en ég bjóst við. Hingað til hefur tíminn á Íslandi verið mjög jákvæður. Ég var á reynslu í Danmörku áður en ég kom hingað og ég var í raun á leið heim til Færeyja þegar ég frétti af áhuga á Íslandi," segir Pætur sem kom einn til Íslands en kærasta hans mun líklega flytja á Akureyri með honum þegar hún kemur úr heimsreisu.
Hafði ekki hugmynd um hvernig íslenskur fótbolti var
Pætur átti líkt og fyrr segir mjög gott tímabil með HB, sem er eitt stærsta félagið í Færeyjum, í fyrra. Hann fór á reynslu til Danmerkur og var með tilboð frá Svíþjóð en endaði á Íslandi.
„Ég spurði hann hvort að deildin hérna væri í alvöru mun betri en í Færeyjum og hann sagði mér að hún væri það."
„Ég var fyrst með tilboð frá Svíþjóð og ég var að hugsa um að fara þangað, en svo gekk það ekki upp. Þú veist hvernig fótboltinn er. Einhvern veginn kom KA inn í myndina, þeir sýndu mikinn áhuga. Ég hafði ekki hugmynd um hvernig íslenskur fótbolti var á þeim tíma því hann er ekki það stór í Færeyjum. Núna er hann að verða stærri því það eru margir færeyskir leikmenn að spila á Íslandi. Ég kom hingað til að æfa, þeir fengu að kynnast mér og ég fékk að kynnast þeim. Þetta var dæmi sem gekk upp og ég fann það strax á mér."
„Það var áhugi frá Svíþjóð en svo kom ég til Íslands. Ég fór á eina eða tvær æfingar og félagið vildi þá semja við mig. Bæði ég og félagið fundum að þetta passaði vel saman. Ég var orðinn þreyttur á að leita mér að félagi og var farinn að hugsa um að fara heim til Færeyja. Þetta var það síðasta sem ég ætlaði að prófa, annars var ég að fara að skrifa aftur undir hjá HB. Ég tók þessu alvarlega og það gekk vel," segir Pætur.
Hann segist hafa rætt við Patrik Johannesen, leikmann Breiðabliks, um íslensku deildina. Patrik lék með Keflavík í fyrra en var svo keyptur til Blika á metfé í vetur.
„Ég talaði mikið við Patrik áður en ég kom til Íslands. Ég spurði hann hvort að deildin hérna væri í alvöru mun betri en í Færeyjum og hann sagði mér að hún væri það. Ég hafði ekki hugmynd, en ég er búinn að sjá núna hversu góð liðin eru. Ég og Patrik eru mjög góðir vinir, ég gisti stundum hjá honum þegar ég er í Reykjavík. Hann er mjög góður leikmaður."
„Ég spilaði líka með Rene Joensen í Færeyjum og hann spilaði með Rodri og Jajalo í Grindavík. Ég tala oft við þá um Rene eða Shaki - það er millinafnið hans - eins og við köllum hann. Þú finnur ekki meiri meistara en hann. Það er mikil tenging á milli Íslands og Færeyja," segir Pætur og bætir við:
„Ísland er stærra. Ég sé umfjöllunina um fótboltann hérna og mér líður eins og það sé allt mun stærra. Á Akureyri er mikill áhugi á fótbolta og ég finn það. Færeyjar eru svo lítið land og þar þekkjast allir en ég er enn að venjast lífinu á Íslandi."
Byrjaði á kennaragráðu en einbeitir sér núna á fótboltanum
Pætur segist hafa verið byrjaður að læra að verða kennari í Færeyjum samhliða því að spila fótbolta. En hér á Íslandi fær hann tækifæri til að verða atvinnumaður.
„Ég var að byrja á kennaragráðu í Færeyjum en ég vildi einbeita mér að fótboltanum. Þegar þetta tækifæri kom upp þá vildi ég taka það. Í Færeyjum gat ég ekki æft tvisvar á dag og tekið aukaæfingar. Við æfum meira á Íslandi og þetta er meira atvinnumannaumhverfi. Þetta er að breytast í bestu liðunum í Færeyjum. Ég held að Heimir (Guðjónsson) hafi breytt landslaginu mikið þar. Hann byrjaði með morgunæfingar í HB," segir Pætur en hann spilaði undir stjórn Heimis Guðjónssonar í HB.
„Ég byrjaði að læra að vera kennari en ég náði ekki að sinna því nægilega vel. Ég var líka mikið með landsliðinu og ég náði ekki að læra, fann ekki tímann til að lesa. Í dag er ég bara að einbeita mér að fótboltanum."
„Ég get ímyndað mér að þú gerir svipaða hluti utan fótboltans hérna og í Færeyjum. Þú ferð á kaffihús með vinum þínum og þess háttar. Þú ferð á handboltaleiki, þetta er svipað. Handbolti er að verða mjög vinsæll því landsliðið er að standa sig vel. Handboltinn er að verða stór, of stór að mínu mati. Ég spilaði blak þegar ég var yngri. Ég held að ég hafi hætt þegar ég var 16 ára og fór að einbeita mér að fótboltanum. Íþróttir eru stórar í Færeyjum."
Pætur kemur úr litlu þorpi sem heitir Skálavík. Brandur Hendriksson, fyrrum leikmaður FH, kemur líka þaðan.
„Ég byrjaði að spila með B71 en það er félag frá eyjunni þar sem ég fæddist. Ég er úr litlu þorpi sem heitir Skálavík þar sem búa um 180 manns. Það eina sem ég hugsaði um þegar ég bjó þar var fótbolti. Brandur er líka þaðan. Maður hafði ekkert annað að gera en að spila fótbolta. Maður hringdi í vina sína og við vorum út á velli að spila fótbolta frá morgni til kvölds. Það var frábær tími."
„Ég flutti svo til Þórshafnar þegar ég var 15 og bjó hjá ömmu minni. Ég var hjá B36 fyrst um sinn. Það er mikill rígur á milli HB og B36. Liðin spila á sama vellinum en það eru tvær mismunandi stúkur fyrir stuðningsmennina hjá hvoru liði. Þetta er skrítið, þú hittir alltaf leikmennina úr hinu liðinu á æfingu á hverjum degi. Eftir grannaslagi er þetta mjög áhugavert. Liðin voru að spila í gær og það er örugglega skrítin stemning á æfingasvæðinu."
Heimir lyfti fótboltanum upp í Færeyjum
Pætur gekk í raðir HB árið 2019 en það er mikill rígur þarna á milli HB og B36 - líkt og fyrr segir.
„Ég held að hann hafi lyft fótboltanum í Færeyjum á hærra plan."
„Mamma mín heldur mikið með HB. Ég byrjaði í B36 en ég fékk ekkert rosalega mikið að spila þar. Svo fór ég í HB og þegar þú spilar þar þá hatarðu B36. Þannig er það bara. Það er mikill rígur þarna á milli og það á að vera þannig. Þú færð montréttinn. Allir sem búa í Þórshöfn halda annað hvort með HB eða B36. Bærinn litast svolítið af því."
???????? It's derby day in Tórshavn, with rivals B36 & HB set to face off in the league's only fixture between two teams from the same town.
— The Sweeper (@SweeperPod) April 3, 2023
They share a unique ground too: the Gundadalur Stadium has two stands side by side - each of which bears the name & colours of one of the teams. pic.twitter.com/iNuo6LhMLS
Það var Heimir Guðjónsson, núverandi þjálfari Vals, sem fékk Pætur yfir til HB á sínum tíma. Heimir stýrði HB í tvö ár og gerði mjög góða hluti.
„Heimir er frábær þjálfari. Ég náði ekki að spila minn besta fótbolta þegar hann var þarna, en ég man að það var mikill kraftur á æfingunum og þær voru erfiðar. Hann kom með það frá Íslandi, að æfa betur og meira. Ég held að hann hafi lyft fótboltanum í Færeyjum á hærra plan," segir Pætur.
„Hann er þjálfari sem leikmenn elska, þú veist hvar þú hefur hann. Heimir veit hvenær hann á að vera grínisti og hvenær hann á að vera alvarlegur. Þannig sé ég hann allavega."
Brynjar Hlöðversson, sem leikur núna með Leikni, spilaði einnig með Pætri í HB. Hann segist eiga góðar og fyndnar sögur af Íslendingunum.
„Ég á mikið af fyndnum sögum af Heimi en hann myndi líklega drepa mig ef ég væri að segja frá þeim," sagði Pætur og hló. „Ég á líka margar sögur af Binna Hlö. Hann er klikkaður náungi. Heimir var vanur að segja að Binni væri úr gettóinu."
Horfa á íslenska landsliðið sem innblástur
„Ég er kantmaður en ég get einnig spilað sem sóknarmaður. Ég hef spilað sem kantmaður alla ævi en á síðasta ári í HB var ég senter. Ég veit ekki hvað ég er lengur. Ég hleyp mikið, er með ágætan hraða og ég er mjög agresívur. Þegar ég fæ tækifæri fyrir framan markið þá er ég frekar svalur og nýti færin vel. Ég er búinn að skora fimm mörk á undirbúningstímabilinu og vonandi get ég skorað mikið. Ég er ekki að hugsa bara um mörkin en vonandi get ég hjálpað liðinu. Ég set mér alltaf markmið og eitt þeirra snýst um mörk. Ég ætla hins vegar ekki að segja þér frá því," segir Pætur þegar hann er beðinn um að lýsa sjálfum sér sem leikmanni.
„Ég skoraði tíu mörk í færeysku deildinni í fyrra og ég held að ég hafi bara byrjað í 18 leikjum. Vonandi get ég haldið áfram að skora en sjáum til."
Pætur, sem er 25 ára gamall, gerði það vel á síðustu leiktíð að hann vann sér inn sæti í færeyska landsliðinu.
„Það hefur verið frábært að vera í landsliðinu. Samkeppnin er að verða meiri. Ég er í liðinu til að veita eldri leikmönnunum samkeppni. Íslenska landsliðið sem fór á tvö stórmót veitir okkur mikinn innblástur, ég held að fólk í Færeyjum horfi mikið til Íslands út af fótboltalandsliðinu," segir Pætur en hann er orðinn mjög spenntur fyrir tímabilinu.
„Það hefur gengið vel að aðlagast en það hefur verið nóg að gera. Mér líður ekki eins og ég sé fluttur enn. Þegar tímabilið byrjar get ég fundið rútínuna mína. Ég er gríðarlega spenntur fyrir tímabilinu, þetta er að byrja. Það eru bara fimm dagar í þetta," sagði Pætur að lokum.
Sjá einnig:
Spá Fótbolta.net - 4. sæti: KA
Hin hliðin - Birgir Baldvinsson (KA)
Athugasemdir

