fim 05.sep 2024 16:22 Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð |
|
Stærra gerist það bara ekki: „Besti hafsent í heimi kemur frá Íslandi"
Það gerist ekki á hverjum degi að íslenskur leikmaður sé tilnefndur til virtustu einstaklingsverðlauna í fótboltaheiminum. Það gerðist í gær.
Glódís Perla Viggósdóttir er tilnefnd til Ballon d'Or verðlauna sem eru veitt besta leikmanni heims ár hvert. Aðeins tveir miðverðir fá tilnefningu núna og er Glódís önnur þeirra.
Betra seint en aldrei, það má segja það.
Glódís er fyrirliði íslenska landsliðsins og algjörlega mögnuð fyrirmynd. Við á Fótbolti.net heyrðum í nokkrum einstaklingum sem tengjast Glódísi á einhvern hátt og fengum þeirra viðbrögð við þessum ótrúlega skemmtilegu tíðindum í gær.
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson og Sæbjörn Steinke skrifa.
Var samherji Glódísar í Stjörnunni og í landsliðinu
„Besti hafsent í heimi kemur frá Íslandi."
„Það er ótrúlegt að geta sagt það. Stærra verður það ekki. Tilnefning sem Glódís Perla hefur svo sannarlega unnið fyrir; hún hefur hreinlega allt sem þarf til að fá þessa tilnefningu og hefur unnið fyrir því frá því hún var barn. Það hefur verið einstakt að fylgjast með ferli Glódísar; frá HK, til okkar í Stjörnunni og svo beint út. Hún hefur tekið rétt skref á ferlinum, unnið sér inn með því að vera nákvæmlega eins og hún er, bætt sig til að verða ein sú besta og alltaf með báðar fætur á jörðinni."
„Hér höfum við hana; fyrirliði Íslands og fyrirliði eins stærsta félags í Evrópu: Glódís Perla Viggósdóttir."
Anna Björk Kristjánsdóttir
Var samherji Glódísar í Stjörnunni og í landsliðinu
„Það sem kom fyrst upp í hugann var að hún ætti þetta svo sannarlega skilið og hversu magnað afrek þetta er, ekki eingöngu fyrir íslenska kvennaknattspyrnu heldur í íþróttasögu Íslendinga. Þetta eru ein stærstu einstaklingsverðlaun í heimi og það að ná á listann er gríðarlega stórt."
„Það sást strax, frá fyrstu æfingu með Stjörnunni, eftir að hún kom til okkar frá HK, að þessi stelpa hafði eitthvað annað og meira en aðrir og að hún myndi ná langt. Ekki datt mér í hug að hún myndi komast á svona lista, en það sást alltaf að hún myndi ná langt í fótboltaheiminum. "
„Hennar styrkleiki er hvað hún er alhliða góður varnarmaður. Hún er sterk, snögg, góð einn á móti einum og með gríðarlegan leikskilning. Svo eru hún auðvitað með þennan gullfót."
Hvernig var að spila við hlið hennar?
„Við náðum strax vel saman og hálfgalið að hugsa til baka hversu ung hún var með okkur í Stjörnunni. Við spiluðum líka mikið saman í landsliðinu og það er svo auðvelt, róandi og þægilegt að hafa hana við hliðina á sér."
Freyr Alexandersson
Þjálfaði Glódísi í landsliðinu
„Það sem kom fyrst upp í hugann var gleði fyrir hennar hönd. Sem Íslendingur, stoltur að eiga svona frábæran kyndilbera."
„Hennar helsti styrkleiki er andlegur styrkur, þrautseigja og vilji, er þar mjög ofarlega."
„Tæknilega gerir hún einfalda hluti vel, er vel þjálfuð. Hefur allt sem góður hafsent þarf að hafa. Hraði, styrkur, áræðni. Góður skallamaður. Getur spilað langt en er einnig tæknilega góð til að spila á þröngu svæði."
„En án hennar andlega styrks væri hún ekki þar sem hún er í dag. Það gerir útslagið frá því að vera góð og í að vera afgerandi góð."
Hefur hún mikið breyst frá því hún undir þinni stjórn í landsliðinu?
„Allt sem ég hef talið upp sem styrkleika hennar hér að ofan hafði hún þegar ég þjálfaði hana. Hún er bara orðin aðeins betri í þessu öllu en þar sem stærsta breytingin hefur verið held ég ákvarðanataka. Það er gríðarlega mikilvægur þáttur fyrir hafsent og þar hefur hún vaxið með aukinni reynslu og að hafa spilað gegn og með þeim allra bestu í lengri tíma. Þetta á við um ákvarðanatöku bæði með bolta og án bolta."
„Utan vallar held ég að hún hafi varla tekið vitlausa ákvörðun á lífsleiðinni, þannig upplifir maður hana allavega."
Guðmunda Brynja Óladóttir
Samherji Glódísar í yngri landsliðum, A-landsliði og leikmaður HK
„Fyrsta sem ég hugsaði þegar ég sá að Glódís hafði verið tilnefnd var: 'Vá loksins fær hún viðurkenninguna sem hún á skilið.' Það er nefnilega þannig að varnarmennirnir gleymast oft og öll athyglin er á sóknarmönnunum. En að vera undir þrítugu og vera fyrirliði í Bayern München og í landliðinu segir bara ótrúlega mikið hvað Glódís er góð i fótbolta og mikill leiðtogi. "
„Ég spilaði náttúrulega á móti Glódísi upp alla yngri flokka, þá var hún óþolandi góður sóknarmaður og hefði 100 prósent náð mjög langt sem sóknarmaður. Maður sá strax að hún myndi ná langt því hún er svo mikill íþróttamaður. Þegar hún var í yngri landsliðunum var hún miðvörður og það var eins og að spila með kempu með 100+ leiki á bakinu. Hún er svo yfirveguð á boltann og les leikinn vel. Glódís var þannig leikmaður að það var ótrúlega leiðinlegt að spila á móti henni, því hún var svindkall, en svo var ótrúlega gott að vera með henni í liði."
„Það er ótrúlega mikil viðurkenning fyrir HK, og sérstaklega kvennaknattspyrnuna í HK, að Glódísi hafi komið upp úr yngri flokkunum.
„Það er ótrúlega gott fyrir HK stelpur og stráka að sjá að besti leikmaður Íslands kemur ekki endilega úr stærsta liðinu á íslandi. Sem þýðir að allt er mögulegt ef að þú leggur nógu mikið á þig."
„Allt HK samfélagið er þvílíkt stolt af henni og maður finnur það. Það þarf bara setja fleiri myndir af henni á veggina, núna er bara mynd niðri í lyftingarsal. Eða þá bara reisa styttu af henni fyrir framan Kórinn."
Hólmar Örn Eyjólfsson
Fyrrum landsliðs- og atvinnumaður, og uppalinn HK-ingur
„Þetta er náttúrulega risastórt og glæsilegt afrek hjá henni, eitthvað sem hún er búin að vinna að í langan tíma. Hún hefur verið einn stöðugasti leikmaðurinn í kvennaboltanum yfir nokkur árabil núna. Það er virkilega ánægjulegt að það sé HK-ingur tilnefndur til Ballon d'Or, við fögnum því!"
Jóhann Berg Guðmundsson
Fyrirliði karlalandsliðsins
„Þetta er gríðarlega flott. Það er ekkert smá mikið afrek að fá þessa viðurkenningu og eitthvað sem allir Íslendingar ættu að vera gríðarlega stoltir af. Hún hefur spilað frábærlega með Bayern München og íslenska landsliðinu, er alvöru leiðtogi og frábær varnarmaður. Hún á þetta fullkomlega skilið. Það er ekki á hverjum degi sem fótboltafólk fær þennan heiður. Þetta er gríðarlegt afrek og sérstaklega fyrir litla þjóð eins og Ísland. Það er frábært."
Katrín Ásbjörnsdóttir
Var samherji Glódísar í landsliðinu
„Klárlega verðskuldað. Glódís er einn af bestu hafsentunum í heimi, ef ekki sá besti. Mér finnst hún alveg frábær og þetta kemur mér bara ekkert á óvart. Bara geggjað hjá henni."
Leifur Andri Leifsson
Fyrirliði HK til margra ára
„Það fyrsta sem kom upp í hugann var að þetta væri verðskuldað miðað við hvernig hún hefur staðið sig bæði með landsliði og félagsliði en þetta er náttúrulega risa stórt."
„Hún er rosalega yfirveguð bæði varnarlega og á boltann, er virkilega góð í öllum þáttum leiksins."
„Hún er hrikalega flott fyrirmynd fyrir alla, ekki bara HKinga. Hún er líka ekki bara fyrirmynd innan vallar, heldur utan vallar líka, kemur virkilega vel fram og alltaf að gefa af sér."
„Auðvitað er þetta mikið stolt fyrir félagið - HK er tiltölulega ungt félag, sérstaklega þegar hún var að alast upp hjá félaginu. Að eiga leikmann í dag sem er tilnefnd sem besti leikmaður í heimi, það sýnir að draumar geta ræst hvaðan sem þú kemur."
Sigurður Ragnar Eyjólfsson
Fyrsti þjálfari Glódísar í A-landsliðinu
„Það fyrsta sem kom upp í hugann var hversu magnað afrek þetta er hjá henni að vera á meðal bestu leikmanna í heimi og ég er bara mjög glaður fyrir hennar hönd og stoltur af henni að hafa náð svona langt."
„Það sást mjög snemma að hún var framúrskarandi góður hafsent miðað við aldur á alþjóðavísu. Hún var líka strax með mikið sjálfstraust og gott hugarfar. Hún fékk því tækifærið snemma með A-landsliðinu hjá mér og átti það skilið. Hún byrjaði inná til dæmis gegn Þýskalandi í lokakeppni EM 2013."
„Það varð strax einkenni á hennar leik hversu yfirveguð hún var og gerði fá mistök. Hún las leikinn mjög vel og var alltaf vel staðsett. Hún var afgerandi sterk í loftinu og mjög sterk maður á móti manni varnarlega. Það fór engin framhjá henni. Hún skilaði boltanum líka vel frá sér. Hún hafði sigurvilja, mikinn metnað og ætlaði sér mjög langt strax frá byrjun. Auk þess voru augljósir leiðtogahæfileikar til staðar hjá henni."
„Það eru allir gríðarlega stoltir af þessu magnaða afreki hjá Glódísi og það hefur verið mjög gaman að fylgjast með henni vaxa og komast í allra fremstu röð bæði sem leikmaður og manneskja. Hún er með sömu styrkleika og áður en þeir hafa allir vaxið enn frekar. Til hamingju Glódís og sömuleiðis til hamingju Ísland með frábæra fyrirmynd og afreksíþróttakonu!"
Þorlákur Árnason
Þjálfari Glódísar hjá Stjörnunni
„Það þarf vart að taka það fram hversu mikill heiður það er fyrir íslenskan leikmann að vera tilnefndur til þessara eftirsóttu verðlauna."
„Glódís hefur átt gríðarlega farsælan feril og svo virðist sem að hún sé einmitt nú á hátindinum."
„Að mínu mati þá hefur skilningur hennar á leiknum komið henni lengst í íþróttinni. Glódís sér leikstöður myndast ‘áður’ en þær koma upp í leiknum svo á köflum lítur út fyrir að leikurinn sé auðveldur henni."
„Þá hefur hún jafnt þétt í gegnum árin bætt sig varnarlega í stöðunni 1/1, þetta var kannski sá þáttur sem mér fannst hún geta unnið mest í þegar við unnum saman."
„Að lokum þá er Glódís mjög heilsteyptur og þroskaður persónuleiki sem virðist hafa verið mjög skynsöm og auðmjúk í gegnum sinn feril."
Fleiri viðbrögð
About time ???? https://t.co/taQrKEnf7O
— Ingibjörg Sigurðar. (@ingibjorg25) September 4, 2024
Þetta er yuge. Langþráð og gríðarlega verðskuldað. https://t.co/M1pjHhjeyY
— Ingvi Þór Sæmundsson (@ingvithors) September 4, 2024
Þetta er risa dæmi!
— Orri Rafn Sigurdarson (@OrriRafn) September 4, 2024
Glódís Perla Viggósdóttir er tilnefnd til Ballon D’Or
Það gerist ekki stærra. Loksins fær hún viðurkenninguna sem hún á skilið.
Besti hafsent í heimi.
Til hamingju @glodisperla pic.twitter.com/qu3smhPuKW
???????????? ???????????????????????? ????’???????? ???????????????????????? ???????????????????????????????? ?????
— FC Bayern (@FCBayernEN) September 5, 2024
???????????????????????????? - Harry Kane
???????? - Mathys Tel
???????? - Lea Schüller
???????? - Giulia Gwin
???????? - Glódís Perla Viggósdóttir #MiaSanMia #FCBayern #BallonDor pic.twitter.com/cJU0R1v9qn
Fátt jafn verðskuldað í boltanum og að Glódís sé tilnefnd til Ballon d'Or. Stórkostlegur leikmaður #fotboltinet https://t.co/omIQal3cvd
— Sæbjörn Steinke (@saebjornth) September 4, 2024
???? Til hamingju Glódís Perla! ????????#dottir https://t.co/eHGZPBZkH0
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) September 4, 2024
Sturlað????????????https://t.co/rB9o3k8kGr
— Bára K. Rúnarsdóttir (@bararunars) September 4, 2024