West Ham blandar sér í baráttu um Soule - City hefur áhuga á Donnarumma - PSG vill leikmenn Man Utd
banner
banner
miðvikudagur 24. júlí
Besta-deild kvenna
mánudagur 22. júlí
Besta-deild karla
föstudagur 19. júlí
Lengjudeild kvenna
Besta-deild kvenna
Lengjudeild kvenna
þriðjudagur 16. júlí
Forkeppni Meistaradeildarinnar
Undankeppni EM kvenna
mánudagur 15. júlí
Besta-deild karla
sunnudagur 14. júlí
Úrslitaleikur EM
Besta-deild karla
föstudagur 12. júlí
Undankeppni EM kvenna
þriðjudagur 9. júlí
Forkeppni Meistaradeildarinnar
mánudagur 8. júlí
2. deild karla
Besta-deild karla
Lengjudeild karla
mánudagur 1. júlí
Lengjudeild kvenna
laugardagur 29. júní
Mjólkurbikar kvenna
þriðjudagur 23. júlí
CHAMPIONS LEAGUE: Second qualifying round
Bodo-Glimt (Norway) 4 - 0 Rigas FS (Latvia)
Panevezys (Lithuania) 0 - 4 Jagiellonia (Poland)
Lincoln (Gibraltar) 0 - 2 Qarabag
APOEL (Cyprus) 1 - 0 Petrocub (Moldova)
Malmo FF (Sweden) 4 - 1 KI Klaksvik (Faroe Islands)
Steaua (Romania) 1 - 1 Maccabi Tel Aviv (Israel)
Dynamo K. (Ukraine) 6 - 2 Partizan (Serbia)
Ferencvaros (Hungary) 5 - 0 TNS (Wales)
UE Santa Coloma (Andorra) 0 - 3 Midtjylland (Denmark)
Lugano (Switzerland) 3 - 4 Fenerbahce (Turkey)
Shamrock (Ireland) 0 - 2 Sparta Prag
EUROPA CONFERENCE LEAGUE: Second qualifying round
Differdange 1 - 0 Ordabasy
Ballkani 0 - 0 Hamrun Spartans
Virtus 0 - 0 Flora
fim 04.apr 2024 19:30 Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Magazine image

Að þetta verði eins sjálfsagt og sjúkraþjálfun þætti mér ekki galin þróun

Viktor Örn Margeirsson er uppalinn í Breiðabliki og lék upp þar alla yngri flokkana. Með stuttri viðkomu í Augnabliki, HK og ÍA hefur hann núna náð að festa sig í sessi í hjarta varnarinnar hjá Blikum. Hann og Damir Muminovic hafa myndað eitt sterkasta miðvarðapar Bestu deildarinnar síðustu árin. Utan vallar sinnir Viktor mikilvægu starfi sem klínískur sálfræðingur en það er starf sem hann segir mjög gefandi. Í sumar vonast Viktor til að hjálpa Blikum að komast aftur á toppinn í íslenskum fótbolta.

Viktor í fyrsta leik sínum í efstu deild.
Viktor í fyrsta leik sínum í efstu deild.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Viktor lengst til vinstri og Kári Ársælsson næst honum.
Viktor lengst til vinstri og Kári Ársælsson næst honum.
Mynd/Fótbolti.net: Eyjólfur Garðarsson
Meiddist sumarið 2017.
Meiddist sumarið 2017.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Og fór upp á Skaga.
Og fór upp á Skaga.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með Blikum 2018.
Í leik með Blikum 2018.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Damir Muminovic.
Damir Muminovic.
Mynd/Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Íslandsmeistarar 2022.
Íslandsmeistarar 2022.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'ftir því sem leið á námið fann ég að þetta átti vel við mig. Ég varð alltaf forvitnari og forvitnari að vita meira um þætti sálfræðinnar. Mér fannst þetta áhugavert, forvitnilegt og skemmtilegt'
'ftir því sem leið á námið fann ég að þetta átti vel við mig. Ég varð alltaf forvitnari og forvitnari að vita meira um þætti sálfræðinnar. Mér fannst þetta áhugavert, forvitnilegt og skemmtilegt'
Mynd/Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
'Það er vonandi að íþróttahreyfingin fari að taka enn meira að sér og það verði meira um íþróttasálfræðinga í störfum íþróttafélaga. Að þetta verði eins sjálfsagt og sjúkraþjálfun þætti mér ekki galin þróun'
'Það er vonandi að íþróttahreyfingin fari að taka enn meira að sér og það verði meira um íþróttasálfræðinga í störfum íþróttafélaga. Að þetta verði eins sjálfsagt og sjúkraþjálfun þætti mér ekki galin þróun'
Mynd/Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Richarlison leitaði til sálfræðings og sagði að það hefði bjargað lífi sínu.
Richarlison leitaði til sálfræðings og sagði að það hefði bjargað lífi sínu.
Mynd/Getty Images
'Við spiluðum vel á köflum og áttum fullt í þetta. Það voru margir frábærir kaflar í fótboltasumrinu á síðasta ári sem munu sitja með manni þangað til maður fer í gröfina'
'Við spiluðum vel á köflum og áttum fullt í þetta. Það voru margir frábærir kaflar í fótboltasumrinu á síðasta ári sem munu sitja með manni þangað til maður fer í gröfina'
Mynd/Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Sæti í riðlakeppninni fagnað.
Sæti í riðlakeppninni fagnað.
Mynd/Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Frá síðasta tímabili.
Frá síðasta tímabili.
Mynd/Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Mikil fyrirmynd.
Mikil fyrirmynd.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Sumarið er spennandi og tilfinningin er sú að þetta verði jafnara mót en oft áður. Vonandi verður það þannig þó ég voni auðvitað mest að við pökkum þessu saman'
'Sumarið er spennandi og tilfinningin er sú að þetta verði jafnara mót en oft áður. Vonandi verður það þannig þó ég voni auðvitað mest að við pökkum þessu saman'
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sjá einnig:
Spá Fótbolta.net - 4. sæti: Breiðablik
Hin hliðin - Dagur Fjeldsted (Breiðablik)

„Ég meiddist á æfingu viku fyrir leikinn og það var tæpt að ég myndi ná að spila hann, en það hafðist. Ég og Elli (Elfar Freyr Helgason) spiluðum þarna saman en hann meiddist og þá kom Kári Ársæls inn á. Við sigldum þessu saman og héldum hreinu í Frostaskjólinu. Við unnum ekki leikinn en þetta var samt sem áður persónulegur sigur fyrir mig," segir Viktor þegar hann lýsir sínum fyrsta leik með Breiðabliki í efstu deild. Leikurinn var gegn KR og hann lifir enn sterkt í minningunni. Síðan þá hefur Viktor spilað 145 leiki í efstu deild og er mikilvægur fyrir uppeldisfélagið sitt.

Ólýsanlegt að spila fyrsta leikinn
Viktor steig sín fyrstu skref í meistaraflokki árið 2012 með Augnabliki, venslafélagi Breiðabliks. Fyrsti leikurinn með Blikum kom svo sumarið 2015.

„Ég er uppalinn Bliki og fer í gegnum alla yngri flokkana þar. Ég tek fyrstu skrefin í meistaraflokki með Augnabliki og það var virkilega dýrmæt reynsla. Svo tek ég eitt tímabil á láni í HK og það var mjög lærdómsríkt. Ég spila minn fyrsta leik í Íslandsmótinu með Breiðabliki árið 2015 á KR-velli í Vesturbænum. Það er eitt af því sem stendur upp úr þegar maður horfir til baka. Það var frábær stund. Það var ólýsanlegt að spila fyrsta leikinn fyrir Breiðablik því það var ekki alltaf augljóst fyrir sjálfum mér að ég myndi ná að festa mig í sessi í meistaraflokk Blika. Eftir langan tíma af miklum æfingum og þrautseigju þá kom tækifærið. Ef þú heldur rétt á spöðunum og reynir að gera þitt, þá kemur tækifærið. Það er bara spurning um að nýta það," segir Viktor.

„Þarna fæ ég smjörþefinn af þessu og spila tvo leiki í deildinni það sumar. Þarna var ég orðinn þriðji hafsent. Á undirbúningstímabilinu fer ég inn í mótið sem fimmti hafsent. Stebbi Gísla og Kári Ársæls voru á undan mér, en ég er þarna ungur að koma inn. Mér var tilkynnt að ég ætti að fara á láni aftur, en næ svo að gera mig gildandi í hópnum með því að spila vel og æfa vel."

Þetta er minn staður
Viktor var áfram hafsent númer þrjú fyrir tímabilið 2016 en sumarið þar á eftir átti hann að vera byrjunarliðsmaður.

„Mér finnst mjög dýrmætt að geta spilað á háu stigi með mínu félagi"

„Árið 2016 var ég áfram þriðji hafsent og spilaði þar nokkra leiki. Ég var alltaf að bíða eftir meira tækifæri og upplifði í augnablikinu að ég ætti fleiri tækifæri skilið. Fyrir 2017 tímabilið er Elli að spila erlendis og ég átti að koma inn fyrir hann. En ég er meiddur, fer kviðslitinn inn í mótið og næ ekki að byrja það. Ég á mjög erfitt uppdráttar að ná mér alveg heilum. Ég fæ það í gegn að fá að fara á lán upp á Skaga til að ná stöðugleika í mína frammistöðu og í minn spilatíma. Það reyndist mér mjög vel og gaf mér mikið. Svo tímabilið þar á eftir spila ég meginþorrann af leikjum," segir þessi öflugi miðvörður.

„Það tók tíma en ég næ einhvern veginn að festa mig í sessi. Það gerist ekki betra en að spila fyrir uppeldisfélagið. Ég myndi ekki vilja hafa þetta neitt öðruvísi og mér finnst þetta bara frábært. Ef eitthvað félag kemst nálægt því að vera eins og heimili manns þá er það Breiðablik. Þetta er minn staður, það er klárlega þannig. Mér finnst mjög dýrmætt að geta spilað á háu stigi með mínu félagi, og að þróast sem leikmaður og manneskja í þessu umhverfi. Það skemmir svo aldrei að ná góðum árangri."

Mjög gott að spila með Damir
Á síðustu árum hafa Viktor og Damir Muminovic saman verið hjartan í vörn Blika. Þeir ná afar vel saman.

„Það er mjög gott að spila með Damir. Við náum gríðarlega vel saman og vegum hvorn annan upp. Í langan tíma höfum við þekkt hvorn annan mjög vel - hvernig við spilum. Við styðjum hvorn annan. Við erum báðir nokkuð fljótir fyrir hafsenta að vera og það hjálpar okkur að spila þann bolta sem við viljum spila. Það er sjaldan sem við lendum í miklum misskilningi sem við eigum erfitt með að leysa. Ef það er eitthvað sem við erum ekki sammála um þá náum við yfirleitt að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Við höfum svipaðan skilning á hlutina," segir Viktor með þá saman í vörninni urðu Blikar Íslandsmeistarar árið 2022.

„Það var sturlað að verða Íslandsmeistari 2022, ólýsanleg tilfinning. Þegar það var í höfn þá þyrmdi yfir mann einver tilfinningin sem maður getur ekki sett í orð. Þessi þrautargang kom heim og saman. Það var gaman að uppskera svona eftir að maður var búinn að vera leggja inn alla þessa vinnu í gegnum tíðina. Maður var rosalega stoltur af liðinu."

Starfar sem sálfræðingur
Utan fótboltans starfar Viktor sem sálfræðingur á Heil heilsumiðstöð. Hann segir það afar gefandi starf.

„Þetta var ekki fyrirfram ákveðin leið en ég dróst svolítið áfram á forvitninni"

„Ég sótti ekki um nám sumarið sem ég fór í grunnnám en ég Oliver (Sigurjónsson) vorum að vinna saman á Kópavogsvelli og hann var að fara í grunnnámið. Ég var týndur og vissi ekki alveg hvað ég ætlaði að gera. Sálfræðin hafði alltaf kitlað mig. Síðan datt ég inn í hana fimm dögum áður en önnin byrjaði. Ég stökk á þetta með honum og það greip mig virkilega vel," segir Viktor.

„Eftir því sem leið á námið fann ég að þetta átti vel við mig. Ég varð alltaf forvitnari og forvitnari að vita meira um þætti sálfræðinnar. Mér fannst þetta áhugavert, forvitnilegt og skemmtilegt. Ég kynntist góðu fólki og frábærum vinum sem gerði þetta enn auðveldara. Við fórum svo nokkrir vinir úr grunnnáminu í meistaranám í klínískri sálfræði. Þetta var ekki fyrirfram ákveðin leið en ég dróst svolítið áfram á forvitninni. Ég sé alls ekki eftir því þar sem þetta er mjög gefandi starf og virkilega skemmtilegt."

Rosalega gefandi
Sálfræðin átti við Viktor og fann hann sína leið í henni.

„Ég er starfandi sálfræðingur á sálfræðistofu. Ég er oft á tíðum að vinna með klínísk vandamál fólks; kvíða, þunglyndi, árátta, þráhyggju eða hvað sem það er. Ég hef líka verið að vinna með fólki í íþróttum, fólki sem er með kvíða í íþróttum, fullkomnunaráráttu eða slíkt. Það fer vel saman. Á stofunni sem ég er á þá vinnum við okkar vinnu eftir gagnrýnum leiðum til að gefa fólki verkfæri til að reyna að ná tökum á sinni andlegu líðan."

„Þetta er rosalega gefandi. Þegar fólk nær árangri og finnst það njóta góðs af þessari aðstoð þá er upplifunin sú að maður sé að gera eitthvað gagn. Þetta getur líka tekið á og maður getur orðið þreyttur. Þetta er annars konar álag, öðruvísi en fótboltinn, og meira andlegt. En þetta er virkilega gefandi, skemmtilegt og fjölbreytt. Ég er mjög ánægður með það sem ég er að gera," segir Viktor.

Eins sjálfsagt og sjúkraþjálfun
Vitundarvakning hefur átt sér stað á síðustu árum um andlega heilsu og mikilvægi þess að huga að henni. Ekki síst í íþróttum er mikilvægt að gera það.

„Ég held að allir myndu njóta góðs af því"

„Það er orðinn virkilega stór þáttur í okkar samfélagi í dag að fólk er að kljást við eitthvað geðrænt. Maður sér það líka í íþróttum hvað andlegi þátturinn er virkilega stór. Það getur skipt sköpum fyrir leikmenn. Það er að verða meiri vitundarvakning og meiri umræða um það; hvernig þessir þættir geta hjálpað okkur að færast nær markmiðum okkar og það að líða vel og lifa sáttur sé mikilvægara öllu."

„Það er meira samþykkt í dag hvernig er tekið á þessum málum og vitundarvakningin er meiri. Það er vonandi að íþróttahreyfingin fari að taka enn meira að sér og það verði meira um íþróttasálfræðinga í störfum íþróttafélaga. Að þetta verði eins sjálfsagt og sjúkraþjálfun þætti mér ekki galin þróun. Og kannski bara þarft. Ég held að allir myndu njóta góðs af því."

Richarlison á alla virðingu skilið
Richarlison, sóknarmaður Tottenham og brasilíska landsliðsins, opnaði sig nýverið um andleg veikindi sín. „Ég veit að það eru enn til staðar fordómar í samfélaginu en ég reyni sem landsliðsmaður að segja fólki að sækja sér hjálp því það bjargaði lífi mínu. Ég var á botninum," sagði Richarlison.

Viktor tekur hatt sinn ofan fyrir sóknarmanninum en það geta allir lent í því að takast á við andleg vandamál.

„Þú sérð það núna að Richarlison var núna að opna sig um sína líðan og hann er á stærsta sviðinu. Hann er að glíma við sín vandamál. Í grunninn erum við bara fólk," segir Viktor.

„Fyrir hann er það fyrst og fremst frábært að hann hafi náð tökum á sinni líðan með hjálp sálfræðinga. En líka að hann hafi haft hugrekki að opna sig með þetta á svona stórum vettvangi er bara frábært og hann fær alla mína virðingu. Það má finnast ýmislegt um hann sem fótboltamann en flestir geta verið sammála um að hann eigi virðingu skilið fyrir að stíga fram og opna á þetta. Í grunninn á andlega heilsa ekki að vera neitt feimnismál. Hann fær alla mína virðingu fyrir að tala opinskátt um þetta."

Skrifuðu söguna
Blikar skrifuðu söguna síðasta sumar þegar liðið varð fyrst íslenskra karlaliða til að komast í Evrópukeppni. Svo sannarlega frábært afrek. Það má alveg færa rök fyrir því að sá árangur hafi komið niður á deildinni en Blikar höfnuðu að lokum í fjórða sæti og voru aldrei nálægt því að verja þann frábæra titil sem þeir höfðu unnið árið á undan.

„Margir frábærir kaflar í fótboltasumrinu á síðasta ári sem munu sitja með manni þangað til maður fer í gröfina"

„Síðasta tímabil var upp og ofan . Það voru vonbrigði í deildinni. Ég veit ekki hvort menn hafi verið orðnir þreyttir en við náðum ekki upp okkar besta leik. Það var gott engu að síður að ná Evrópusæti, að sigla því heim. Við sýndum styrk og seiglu en það hefur einkennt þetta lið," segir Viktor.

„Þessi Evrópukeppni stendur klárlega upp úr. Að upplifa það að fara á þennan stóra vettvang var frábært. Þegar maður horfir til baka getur maður verið virkilega stoltur af því. Við hefðum viljað gera betur í riðlinum. Það er ekkert leyndarmál að við áttum að ná betri úrslitum þar. Við spiluðum vel á köflum og áttum fullt í þetta. Það voru margir frábærir kaflar í fótboltasumrinu á síðasta ári sem munu sitja með manni þangað til maður fer í gröfina. Að öðru leyti var líka annað sem við hefðum mátt gera betur og öðruvísi."

„Maður fann fyrir mikilli samheldni í liðinu og í félaginu öllu í gegnum vegferðina í Evrópu. Það stendur klárlega upp úr. Það yfirtók sumarið og skyggði aðeins á deildina hjá okkur. Ég er ekki að nota það sem einhverja afsökun en ef maður rýnir í það þá tók það athygli og orku frá deildinni hér heima. Við viljum gera okkur gildandi á öllum vígstöðum, keppa um alla titla og komast aftur um í riðlakeppni. Við viljum skoða hlutina og komast aftur í þetta álag," segir Viktor.

Mikil fyrirmynd
Blikar mæta eflaust hungraðir til leiks í ár og staðráðnir í að gera betur í deildinni.

„Ég er mjög spenntur. Maður hefur æft allan veturinn fyrir þetta þó veturinn hafi verið öðruvísi hjá okkur en áður. Við tókum styttra undirbúningstímabil og það var að mínu mati mjög skemmtilegt að upplifa eitthvað nýtt. Sumarið er spennandi og tilfinningin er sú að þetta verði jafnara mót en oft áður. Vonandi verður það þannig þó ég voni auðvitað mest að við pökkum þessu saman. Ég er virkilega spenntur og finn að það er mikill meðbyr með deildinni. Við Blikar erum að koma vel undan vetrinum og erum vel gíraðir að hafa þetta sumar eins skemmtilegt og hægt er," segir Viktor en fyrsti leikur er gegn FH á mánudag. Í liði FH er eldri bróðir hans, Finnur Orri.

„Það er skemmtilegra að spila með honum en á móti honum. Það er alveg gaman að spila á móti honum en maður upplifir stundum fyndna tilfinningu þegar maður er að spila við hann og sér hann gera einhver klaufamistök. Þá fæ ég súrsæta tilfinningu: 'Liðinu mínu gengur vel, en come on Finnur'. Ég held með honum en ég vil samt vinna hann. Það er öðruvísi tilfinning en með aðra leikmann. Ég hef horft upp til hans frá því ég hafði vit. Ég er gríðarlega stoltur af honum."

„Hann er algjör fyrirmynd fyrir mig, engin spurning," sagði Viktor að lokum en það verður áhugavert að fylgjast með þeim bræðum kljást á mánudaginn.
Athugasemdir
banner
banner