Rodrygo orðaður við Liverpool - Mörg félög í Sádi-Arabíu vilja Casemiro - Dortmund hefur áhuga á Greenwood
föstudagur 31. maí
Lengjudeild karla
miðvikudagur 29. maí
Lengjudeild kvenna
mánudagur 27. maí
Besta-deild karla
föstudagur 17. maí
Mjólkurbikar karla
mánudagur 13. maí
Lengjudeild kvenna
þriðjudagur 7. maí
Lengjudeild kvenna
mánudagur 6. maí
Besta-deild karla
Lengjudeild kvenna
laugardagur 4. maí
2. deild karla
Besta-deild karla
Lengjudeild karla
miðvikudagur 1. maí
Lengjudeild karla
mánudagur 29. apríl
Besta-deild karla
fimmtudagur 30. maí
Engin úrslit úr leikjum í dag
þri 16.apr 2024 16:30 Mynd: Sigurður Ingi Pálsson
Magazine image

Byrjaði á túninu heima, var landsliðsmarkvörður og er nú stoltur leiðtogi „fjölskyldunnar"

Bryndís Rut Haraldsdóttir er algjör lykilkona fyrir Tindastól. Innan sem utan vallar. Innan hópsins er hún leiðtogi og mikilvægur leikmaður, en utan vallar gengur hún í öll verk fyrir félagið sem henni þykir svo rosalega vænt um. Saga Bryndísar er mjög áhugaverð en hún var á sínum tíma einn efnilegasti markvörður landsins. Draumar um háskólabolta í Bandaríkjunum fjöruðu út þegar hún meiddist en við það mynduðust nýir draumar. Hún er í dag stolt að leiða stelpurnar sínar í Tindastóli út á völlinn í deild þeirra bestu.

Ólst upp á sveitabæ stutt frá Varmahlíð.
Ólst upp á sveitabæ stutt frá Varmahlíð.
Mynd/Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
'Ég fór svo að suða um að fá að fara á æfingar í Varmahlíð og ég fékk það. Ég sýndi því ekki mikinn áhuga strax en þegar það kom að því að við fórum að keppa, þá kom keppnisskapið upp og þá breyttist leikurinn svolítið'
'Ég fór svo að suða um að fá að fara á æfingar í Varmahlíð og ég fékk það. Ég sýndi því ekki mikinn áhuga strax en þegar það kom að því að við fórum að keppa, þá kom keppnisskapið upp og þá breyttist leikurinn svolítið'
Mynd/Sigurður Ingi Pálsson
Óskar Smári er bróðir Bryndísar.
Óskar Smári er bróðir Bryndísar.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bryndís í markinu.
Bryndís í markinu.
Mynd/Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Guðrún Arnardóttir var hluti af U19 landsliðinu á sama tíma og Bryndís.
Guðrún Arnardóttir var hluti af U19 landsliðinu á sama tíma og Bryndís.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sandra María var einnig í liðinu.
Sandra María var einnig í liðinu.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Þú sérð einhverja mögulega framtíð í þessu sem er ekki bara áhugamál. Það var komin hugmynd fyrir mig að fara út í háskóla í Bandaríkjunum'
'Þú sérð einhverja mögulega framtíð í þessu sem er ekki bara áhugamál. Það var komin hugmynd fyrir mig að fara út í háskóla í Bandaríkjunum'
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég þurfti aftur að vera með fjölskyldu minni í fótboltanum. Ég ákvað að gefast ekki upp en ég ákvað að takast á við þessa breytingu út af heilsufari mínu'
'Ég þurfti aftur að vera með fjölskyldu minni í fótboltanum. Ég ákvað að gefast ekki upp en ég ákvað að takast á við þessa breytingu út af heilsufari mínu'
Mynd/Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Bryndís í leik með Stólunum.
Bryndís í leik með Stólunum.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Það að snúa aftur snerist um ánægjuna og gleðina. Ég var ekkert í leit að frægð og frama. Það var leiðinlegt að geta ekki farið í háskólabolta úti, eins og ég var farin að pæla í að gera'
'Það að snúa aftur snerist um ánægjuna og gleðina. Ég var ekkert í leit að frægð og frama. Það var leiðinlegt að geta ekki farið í háskólabolta úti, eins og ég var farin að pæla í að gera'
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik á Króknum.
Í leik á Króknum.
Mynd/Sigurður Ingi Pálsson
Sumarið 2020 komst Tindastóll upp í efstu deild.
Sumarið 2020 komst Tindastóll upp í efstu deild.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Murielle Tiernan breytti miklu.
Murielle Tiernan breytti miklu.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Árið 2020 var algjört draumaár. Ég þurfti að spóla til baka og sjá hvar þessi vinna byrjaði. Hún byrjaði 2018 þegar við féllum í 2. deild og að sjá vegferðina, hún er skemmtileg'
'Árið 2020 var algjört draumaár. Ég þurfti að spóla til baka og sjá hvar þessi vinna byrjaði. Hún byrjaði 2018 þegar við féllum í 2. deild og að sjá vegferðina, hún er skemmtileg'
Mynd/Fótbolti.net - Hulda Margrét
Kjartan Sturluson og Óskar Smári.
Kjartan Sturluson og Óskar Smári.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bryndís er afar mikilvæg fyrir Tindastól, innan sem utan vallar.
Bryndís er afar mikilvæg fyrir Tindastól, innan sem utan vallar.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég reyni mitt allra best að vera innan handar fyrir alla leikmenn liðsins'
'Ég reyni mitt allra best að vera innan handar fyrir alla leikmenn liðsins'
Mynd/Sigurður Ingi Pálsson
Úr leik á síðasta tímabili.
Úr leik á síðasta tímabili.
Mynd/Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Marki fagnað á síðasta tímabili.
Marki fagnað á síðasta tímabili.
Mynd/Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
'Ég er mjög spennt fyrir sumrinu. Við erum enn að vinna okkur upp stigann og erum hungraðar í meira. Við viljum gera betur'
'Ég er mjög spennt fyrir sumrinu. Við erum enn að vinna okkur upp stigann og erum hungraðar í meira. Við viljum gera betur'
Mynd/Fótbolti.net - Hulda Margrét
Stólunum er spáð áttunda sæti.
Stólunum er spáð áttunda sæti.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég er mjög stolt af því að leiða þetta lið út, mjög stolt af mínu liði, mínum stelpum og því sem við höfum afrekað í litlu bæjarfélagi'
'Ég er mjög stolt af því að leiða þetta lið út, mjög stolt af mínu liði, mínum stelpum og því sem við höfum afrekað í litlu bæjarfélagi'
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sjá einnig:
Spá Fótbolta.net fyrir Bestu kvenna: 8. sæti
Hin hliðin - Aldís María Jóhannsdóttir (Tindastóll)

Fótboltasaga Bryndísar hefst á sveitabæ rétt hjá Varmahlíð.

„Ég var upprunalega í pínulitlu félagi sem heitir Smári í Varmahlíð. Ég er uppalin á sveitabæ um tveimur kílómetrum frá Varmahlíð. Þar var 5. flokkur síðasti flokkurinn sem var í boði. Ég var þá ekkert að æfa í 4. flokki, var bara í sveitinni og að vinna. Á yngra ári í 3. flokki kom Óskar (Smári Haraldsson), bróðir minn, mér inn í það að mæta á æfingu hjá Tindastóli. Hann fær stelpu úr Tindastóli sem er ein besta vinkona mín í dag til að draga mig með sér. Það er ótrúlega gaman að rifja þetta upp því þetta er mjög langt síðan," segir Bryndís í spjalli við Fótbolta.net.

Á túninu heima
Bryndís ólst upp í stórri fjölskyldu og á hún fjóra bræður. Hún er yngst í systkinahópnum en lék sér í fótbolta á túninu heima með bræðrum sínum, Óskari og Baldri.

„Ég kem úr sveitinni og var á ójöfnu grasi að spila fótbolta á eldgamalt mark"

„Við erum sex systkynin. Ég á eina systur sem er 16 árum eldri en ég og hún flytur suður og fer þar í skóla. Þá er hún lítið heima við. Ég elst því mikið bara upp með fjórum bræðrum mínum. Það eru tvö ár og þrjú ár á milli bræðra minna sem eru næst mér í aldri. Ég er yngst. Ég var alltaf mikið að leika mér með Óskari og Baldri, bræðrum mínum. Við vorum mikið að leika okkur á túninu heima," segir Bryndís.

„Ég fór svo að suða um að fá að fara á æfingar í Varmahlíð og ég fékk það. Ég sýndi því ekki mikinn áhuga strax en þegar það kom að því að við fórum að keppa, þá kom keppnisskapið upp og þá breyttist leikurinn svolítið. Ég var eiginlega bara ein með strákum. Það var engin stelpa á mínum eldri í skólanum þar sen ég er bara úr mjög litlu bæjarfélagi."

„Ég var mikið í fótbolta með nágrönunum á næsta sveitabæ, með bræðrum mínum og vinum. Ég æfði svo tvisvar eða þrisvar í viku með Smáranum. Ég kem úr sveitinni og var á ójöfnu grasi að spila fótbolta á eldgamalt mark. Við áttum einmitt bara eitt mark og nýttum það eins vel og við gátum."

Stór fjölskylda
Það er allt öðruvísi að alast upp í litlu bæjarfélagi út á landi en á höfuðborgarsvæðinu. Bryndís kann vel við sig í Varmarhlíð og býr þar í dag.

„Þegar ég varð eldri þá sá ég að heimurinn er nú stærri"

„Þetta er rosalega þétt samfélag. Ísland er í raun og veru lítið samfélag, en hérna er þetta bara stór fjölskylda. Það er gaman að því þegar maður labbar út í búð að þá heilsast allir og það þekkjast allir," segir Bryndís.

„Þegar maður var fyrst að alast upp Í Varmahlíð, þá fannst manni maður vera í pínulitli þorpi en svo fór ég á Krókinn seinna meir og það stækkaði veröldina. Þegar ég varð eldri þá sá ég að heimurinn er nú stærri. Reykjavík er aðeins öðruvísi. Ég hef alltaf kunnað rosalega vel við mig í svona litlu samfélagi þar sem maður á mikið af góðum vinum og fjölskyldu. Ég hef alltaf sagt það að ég veit ekki hvort ég myndi fúnkera í Reykjavík eða í stærra bæjarfélagi. Ég vinn á Sauðárkróki í dag en ég bý í Varmahlíð. Ég keyri í 20 mínútur og þá er ég komin úr litlu þorpi yfir á Sauðárkrók sem er aðeins stærra en lítill bær samt sem áður."

Var unglingalandsliðsmarkvörður
Bryndís er í dag þekkt sem öflugur varnarmaður en segja má að fótboltaferill hennar hafi byrjað í markinu.

„Ég var hikandi en tók það bara einhvern veginn á mig"

„Það er alveg gaman að segja frá því. Á túninu heima vildi ég helst ekki vera í marki. Þá var ég frekar smeyk við það. Og þegar ég var í Smáranum með strákunum þar, þá var ég kantari, miðjumaður og varnarmaður. Eiginlega hvað sem er, annað en að vera í marki. Ég lenti í því að úlnliðsbrotna einu sinni þegar ég var í fótbolta með bróður mínum og vini á túninu heima af því ég var í marki. Þá vorum við í einhverjum leik þar sem ég þurfti að vera í marki. Ég var alltaf pínu smeyk við það og fannst það ekki heillandi," segir Bryndís.

„Ég fer svo á eina æfingu með Tindastóli. Á fyrstu æfingunni mæti ég þarna með vinkonu minni og þá var ég ekki í marki, bara að spila úti eitthvað. Ég var ekki alveg á sama stað og hinar stelpurnar. Eftir æfinguna kemur þjálfarinn og byrjar að ræða við mig. Þetta var á fimmtudegi, ég man það mjög vel. Hann sagði við mig að það væri leikur á sunnudeginum. Ég man hvernig leikurinn fór, hann fór 1-0 og við töpuðum. En hann sagði við mig að markvörðurinn myndi ekki komast í leikinn og spurði hvort ég vildi ekki vera í marki. Ég var ekki mjög spennt fyrir því. Hann prófaði svo að sparka á mig og sparkaði boltanum beint á mig. Ég greip hann og hann sagði við mig að ég væri flott í marki. Ég var hikandi en tók það bara einhvern veginn á mig."

Í kjölfarið varð Bryndís mjög efnilegur markvörður, og var hún ein sú efnilegasta á landinu í þeirri stöðu. Hún var markvörður í sterku U19 landsliði sem innihélt leikmenn eins og Söndru Maríu Jessen, Hildi Antonsdóttur, Guðrúnu Arnardóttur, Ingibjörgu Sigurðardóttur og Elínu Mettu Jensen.

„Ég spilaði þennan leik og það var eins og ég hefði ekki gert neitt annað. Ég var mætt til að keppa. Ég stökk fyrir allt. Ég var ekki með tæknina upp á tíu en það var kjarkur í mér. Eftir það spilaði ég í marki í nokkur ár, frá 2010 til 2014. Árið 2013 var ég komin í U19 landsliðið. Þjálfarinn minn í 3. flokki gaf mér einfaldar markvarðaræfingar og seinna meir fékk ég markvarðarþjálfara og það hjálpaði mér helling," segir Bryndís.

Gat ekki haldið áfram í markinu
Hún var farin að vekja athygli sem unglingalandsliðsmarkvörður í fótbolta og átti sér drauma um að komast út í háskólaboltann í Bandaríkjunum, en þá lenti Bryndís í erfiðum meiðslum sem settu strik í reikninginn.

„Þú sérð einhverja mögulega framtíð í þessu sem er ekki bara áhugamál"

„Það gekk mjög vel en svo verð ég fyrir leiðinlegum meiðslum. Ég var að detta úr axlarlið en læknarnir hérna voru bara á því að ég væri ekki nógu sterk og ég þyrfti að styrkja mig meira. Ég eyddi heilmiklum tíma í það að reyna að styrkja mig og koma til baka aftur. Ég veit ekki hversu oft ég datt úr lið og fór í hann aftur. Það endaði á því að ég varð andlega buguð. Ég fékk það í gegn með sjúkraþjálfara að fá að hitta sérfræðing við þessum meiðslum," segir Bryndís.

„Það kemur í ljós að ég var búin að brjóta liðskálina og rífa liðbönd. Ég fer í aðgerð árið 2015 og svo byrja ég aftur að æfa eftir sex mánuði og þá kemur í ljós að ég hafði klúðrað hinni öxlinni líka. Þetta gerist bara í fótboltanum, ég ætla að skutla mér fyrir bolta og liðböndin gáfu sig."

„Þú sérð einhverja mögulega framtíð í þessu sem er ekki bara áhugamál. Það var komin hugmynd fyrir mig að fara út í háskóla í Bandaríkjunum. Ég spurði alveg eftir aðgerðina hvort ég gæti ekki haldið áfram og læknirinn sagði að það yrði allt í góðu. Eftir aðgerðina á hinni öxlinni kom í ljós að liðskálin mín er ekki nægilega skálalöguð. Hún er eiginlega slétt. Þetta var svo illa farið hjá mér og læknirinn ráðlagði mér þá að fara ekki aftur í markið. Ef ég færi aftu úr lið þá þyrfti ég mögulega að fara í stærri og erfiðari aðgerð. Ég þurfti að hugsa um líkamlega heilsu."

Vildi ekki hætta í fótbolta
Þegar Bryndísi var ráðlagt að fara ekki aftur í markið, þá hugsaði hún ekki um að hætta í fótbolta. Að kveðja íþróttina kom ekki til greina en það var erfitt andlega að vera fjarri fótboltanum í gegnum meiðslin.

„Það að snúa aftur snerist um ánægjuna og gleðina. Ég var ekkert í leit að frægð og frama"

„Auðvitað hugsaði ég að fara aftur í markið en ég hugsaði það líka að spila sem útileikmaður. Læknirinn tók betur í það þar sem það eru allt öðruvísi átök. Þú ert ekki með útrétta hendi að fá högg á hana," segir Bryndís. „Ég hef alltaf haft mikla ástríðu fyrir íþróttinni. Eftir fyrri aðgerðina fann ég hvað það tók andlega mikið á að vera fjarri fótboltanum. Mér leið eins og ég væri aumingi, ræfill og eitthvað fleira því ég fékk þau skilaboð að ég þyrfti að styrkja mig. Það væri vandamálið, að ég væri ekki nægilega sterk. Ég var búin að vera í þessum U19 landsliðsverkefnum en ég missi af síðustu ferðinni sem ég átti möguleika á því ég var ekki að standa mig á æfingum, var ekki nægilega góð. Árið 2014 var mjög erfitt fyrir mig."

„Ég einangraði mig mikið í þessum aðgerðum. Ég reyndi að halda einhverri rútínu, en ég var búin með skólann. Ég fann hvað það tók mikið á að vera ekki í íþróttinni, að vera ekki í hópnum og vera ekki partur af einhverju. Félagslega var ég týnd. Það kom strax upp að ég þyrfti að komast aftur í þetta, aftur í þennan hóp. Ég þurfti aftur að vera með fjölskyldu minni í fótboltanum. Ég ákvað að gefast ekki upp en ég ákvað að takast á við þessa breytingu út af heilsufari mínu. Ég er mjög aktív manneskja og mig langar ekki að lenda í því að eitthvað líkamlegt fari að hamla mér í framtíðinni."

Það hentaði henni talsvert betur að verða útileikmaður út af þessum erfiðu meiðslum.

„Það er alltaf einhver hætta en ég minnkaði hana gígantískt við að fara úr markinu. Það að snúa aftur snerist um ánægjuna og gleðina. Ég var ekkert í leit að frægð og frama. En það var leiðinlegt að geta ekki farið í háskólabolta úti, eins og ég var farin að pæla í að gera. Amerískir leikmenn sem voru hérna þá voru búnir að benda mér á skóla og svoleiðis. Mér finnst það mjög gott skref fyrir leikmenn að gera þetta, að ná sér í menntun og upplifa annað umhverfi," segir Bryndís.

Nýir draumar
Fyrir meiðslin hafði Bryndís átt drauma um háskólabolta og jafnvel atvinnumennsku og landsliðið. En eftir meiðslin, þá urðu til nýir draumar: Að koma Tindastóli upp í efstu deild.

„Árið 2020 var algjört draumaár."

„Árið 2017 var árið sem við féllum niður í 2. deild og þá breyttist fyrirkomulagið. Það voru riðlar en svo er þessu breytt í deildir. Við föllum niður í 2. deild og byrjum þar árið 2018. Það áttu sér stað svolítil kynslóðarskipti. Við vorum að fá ungar og efnilegar stelpur upp. Þetta var stökk fyrir þær en þar byrjar svolítið breytingin. Það kemur nýtt þjálfarateymi og við fáum þá styrkingu sem við þurfum. Við erum á botninum og eina leiðin var að vinna sig upp," segir Bryndís.

„Við vorum með efnilegan og kraftmikinn hóp. Þar byrjar þessi hugsun: Hvað getum við gert? Við fáum Murr (Murielle Tiernan), okkar konu, og þá byrjar boltinn að rúlla. Við erum alveg með geggjaðan hóp og draumurinn byrjar að vaxa. Draumurinn um að fara í háskólabolta og eitthvað meira varð að engu en þessi draumur byrjar eftir að það urðu breytingar í hópnum og breytingar í félaginu. Maður fór að sjá að við gætum þetta alveg."

Koma Murielle Tiernan á Sauðárkrók hafði mikil áhrif en hún raðaði inn mörkunum fyrir félagið.

„Murr er kannski ekki sambærileg öðrum erlendum leikmanni því hún er alveg geggjuð. Ef maður fær rétta mannskapinn og réttu styrkinguna, þá er allt hægt. Og ef hópurinn er mótíveraður rétt," segir Bryndís en árið 2020 rættist þessi draumur, Tindastóll komst upp í Bestu deildina.

„Árið 2020 var algjört draumaár. Ég þurfti að spóla til baka og sjá hvar þessi vinna byrjaði. Hún byrjaði 2018 þegar við féllum í 2. deild og að sjá vegferðina, hún er skemmtileg. Það sem er mikilvægt fyrir mig er að ég er að sjá alla leikmennina í kringum mig verða betri. Þær sem voru að taka sín fyrstu skref í meistaraflokki, hvernig þær komu inn og hversu þéttur hópurinn var. Þetta var fyrst fjarstæður draumur en árið 2018 byrjaði þetta að malla í hausnum á manni. 'Hvað getum við gert?' Árið 2019 lendum við í þriðja sæti í 1. deild og þá sáum við þetta enn frekar."

Styrkti sambandið
Tindastóll fór upp 2020 en liðið féll aftur á fyrsta ári. Hugurinn leitaði þó strax aftur upp.

„Fyrir mig persónulega hefur þetta styrkt sambandið á milli mín og hans"

„Það er allt hægt. Við féllum úr Bestu deildinni og áttum ekki gott tímabil. Það gerist. Það er mótlæti og það er erfitt að ná öllum markmiðum strax. Við náðum markmiðinu að komast upp í 1. deild, við náðum að halda okkur þar og náðum svo markmiðinu að fara upp í efstu deild. En við náðum ekki að halda okkur uppi. Þetta er svo geggjaður hópur að maður sá það strax að það var engin að spá í að vera lengi í 1. deild. Við fórum strax upp og erum núna á leið inn í annað tímabilið í röð í efstu deild," segir Bryndís. „Við erum alltaf að bæta við markmiðum og erum að ná þeim jafnt og þétt. Stundum tekurðu eitt skref aftur á bak en þá þarftu bara að taka tvö skref fram á við."

Óskar Smári, bróðir Bryndísar, þjálfaði liðið ásamt Guðna Þór Einarssyni í Bestu deildinni 2020. Bryndís segir að það hafi verið krefjandi að vera með bróður sinn sem þjálfara, en það hafi á endanum styrkt samband þeirra.

„Það var krefjandi að bróðir minn hafi þarna verið að þjálfa mig. Við þurftum að hafa ákveðnar línur sem er gott og gilt, en það var alveg erfitt. Guðni og Óskar voru flottir saman en þetta var erfitt verkefni og við vissum það. Við vorum ekki langt frá því að halda okkur uppi. Fyrir mig var þetta krefjandi. Þetta er mín fjölskylda og svo kemur bróðir minn inn í þetta. Það getur haft áhrif á okkur bæði og ég hef alveg sagt það við hann að fyrir mig persónulega hefur þetta styrkt sambandið á milli mín og hans. Það leiddi af góðu fyrir okkur á endanum," segir Bryndís.

Mikilvæg utan vallar
Eins og segir hér að ofan, þá er Bryndís afar mikilvæg fyrir Tindastól innan sem utan vallar. Hún er afar sterk fyrir hópinn og mikill leiðtogi.

„Mér er mjög annt um fótboltann á Sauðárkróki"

„Ég reyni mitt allra best að vera innan handar fyrir alla leikmenn liðsins. Ég vil að öllum líði vel hérna. Og það er alveg sama hvort þú sért íslenskur leikmaður eða erlendur. Ég legg mitt af mörkum fyrir félagið og stelpurnar mínar ef ég get," segir Bryndís en utan vallar hjálpar hún líka félaginu.

„Ég er að vinna hjá sveitarfélaginu og er smiður. Ég var að vinna hjá sveitarfélaginu þegar gervigrasið kom hingað. Ég lagði niður þetta gervigras. Það komu verktakar frá Reykjavík að leggja það niður en ég var með í því. Það voru mjög skrautlegir tímar. Ég þurfti að minnka við æfingarnar því það lá svo á að fá völlinn. Ég sagði við Jónsa og Guðna, sem voru þá að þjálfa liðið, að ég væri að vinna eins og ég gæti fram á kvöld. Ég gæti ekki mætt næstu vikurnar nema á mjög mikilvægar æfingar. Þeir vildu fá völlinn og þurftu hann. Við gátum ekki spilað heimaleiki á þeim tíma því venjulega grasið hefði ekki verið klárt."

„Ég veit ekki hvort það sé út af því að ég fæ núna öll verkefnin tengd fótboltanum hjá bæjarfélaginu. Hvort sem það er að smíða eitthvað fyrir völlinn eða að moka hann. Mér er mjög annt um fótboltann á Sauðárkróki og kannski tengist það."

Bryndís sinnir fjölbreyttum verkefnum í sinni vinnu og fer meðal annars í verkefni fyrir fótboltafélagið sem hún spilar fyrir.

„Ég myndi alveg kalla mig 'altmuligt konu' í minni vinnu. Ég er að vinna á tækjum, er að smíða og er í þjónustu almennt. Það gerir þetta extra skemmtilegt að fara stundum í verkefni tengd fótboltanum. Eins og með gervigrasið, ég var mjög ánægð að fá að koma því í gang. Ég held að sá sem var að vinna með mér hafi ekki verið neitt rosalega ánægður. Ég var alltaf að reka á eftir honum. 'Drífa þetta af, við þurfum þennan völl núna'. Það getur alveg verið krefjandi fyrir karlmenn að vera með konu í vinnu sem vill að þetta gerist hratt en ég læt það ekkert á mig fá. Ég vil að hlutirnir séu gerðir strax og ég dríf þetta áfram," segir Bryndís en hún sér líka stundum um að moka völlinn á Sauðárkróki. Hún fer í alls konar verkefni og hjálpar félaginu.

Sumarið framundan
En sumarið sem er framundan. Það styttist heldur betur í það. Hvernig líst þér á þetta allt saman?

„Þetta er heimaliðið mitt og mín fjölskylda"

„Ég er mjög spennt fyrir sumrinu. Við erum enn að vinna okkur upp stigann og erum hungraðar í meira. Við viljum gera betur. Ég er spennt að sjá hvernig deildin fer. Mér finnst að deildin sé að jafnast. Stjarnan fer í Meistaradeildina fyrir tveimur árum. Fólk hefur alltaf talað um að það séu Valur og Breiðablik, og svo rest. En þetta er að blandast. Ég þurfti að setja upp spá um daginn og það var mjög erfitt. Ég þurfti mikið að spá í þetta. Það var gaman í fyrra hvað þetta var jafnt," segir Bryndís.

„Það geta allir unnið alla en samt vitum við þannig lagað hvaða lið eru með sterkustu hópana. Þetta verður áhugavert að sjá og það er alltaf þannig."

Það er alls ekki sjálfgefið að Tindastóll á Sauðárkróki sé með lið í efstu deild en Bryndís segist mjög stolt af því að leiða liðið út í deild þeirra bestu.

„Ég er mjög stolt af því að leiða þetta lið út, mjög stolt af mínu liði, mínum stelpum og því sem við höfum afrekað í litlu bæjarfélagi. Við erum ekki með stærsta hópinn en við erum með góðan hóp og við leggjum svo mikið á okkur fyrir þetta. Það gerir mig enn meira stolta; öll vinnan sem þú leggur í þetta, hún mun skila sér. Við erum í efstu deild og það er út af því að við erum tilbúnar að leggja á okkur mikla vinnu og höfum þann metnað sem þarf."

„Þetta er heimaliðið mitt og mín fjölskylda. Það fyllir mig miklu stolti að sjá þessar stelpur vaxa og komast á þennan stað. Við komum okkur þangað. Maður er í þessu fyrir fjölskylduna sem þetta félag er," sagði Bryndís Rut Haraldsdóttir, fyrirliði Tindastóls að lokum.
Athugasemdir
banner
banner