þri 26.apr 2022 16:45 Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð |
|

Spá Fótbolta.net fyrir Bestu kvenna: 1. sæti
Keppni í Bestu kvenna hefst í dag. Fótbolti.net mun í dag opinbera hvaða liðum er spáð efstu tveimur sætunum í sumar.
Ída Marín og Mist fögnuðu því að verða meistarar meistaranna á dögunum.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
1. Valur
2. Breiðablik
3. Selfoss
4. Stjarnan
5. Þróttur
6. Þór/KA
7. Afturelding
8. ÍBV
9. KR
10. Keflavík
1. sæti Valur (Íslandsmeistari)
Lokastaða í fyrra: 1. sæti (Íslandsmeistari). Valsliðið náði góðum takti eftir hikst í upphafi tímabils. Liðið var í þriðja sæti, búið að skora tíu mörk og fá á sig tíu eftir fimm leiki í fyrra. Eftir jafntefli við Þór/KA í sjöundu umferð litu Valskonur ekki við og hægt og rólega byggðu upp forskot á toppnum. Í fjórtándu umferð harkaði liðið í gegn sigur gegn ÍBV og í fimmtándu umferð var titillinn í raun kominn í hús með sigri á Breiðabliki. 45 stig af 54 mögulegum, markatalan 52:17, 22 stig tekin á heimavelli og 23 stig á útivelli og einungis tveimur stigum tapað í síðustu ellefu leikjunum.
Þjálfarinn: Pétur Pétursson er áfram þjálfari liðsins en nú er hann með Matthías Guðmundsson sér til aðstoðar. Pétur er að fara inn í sitt fimmta tímabil sem þjálfari liðsins.
Álit Eiðs
Eiður Ben Eiríksson er sérfræðingur Fótbolta.net í Bestu kvenna en hann var síðustu ár annar af þjálfurum Vals. Hér er álit Eiðs á Valsliðinu í ár.

Eiður og Pétur á góðri stundu í fyrra
„Valsliðið mætir til leiks sem meistarar þetta tímabilið. Eftir að hafa unnið mótið 2021 með 9 stiga mun hafa orðið einhverjar breytingar en liðið mætir alltaf sterkt til leiks og eru líklegasta liðið til þess að vinna deildina í ár. Pétur Pétursson er á sínu fimmta ári sem þjálfari en er með gjörbreytt starfslið í kringum sig að þessu sinni."
Stórir póstar farnir
„Stórir póstar úr liðinu í fyrra eru farnar, Mary Alice var varnarlega og sóknarlega mikilvæg liðinu, Fanndís var komin í sitt gamla form áður en hún sleit krossband, Dóra María lagði skóna á hilluna, leikmaður sem var lítið í unræðunni en var betri heldur en fólk heldur er Cyera Hintzen en hún gerði frábæra hluti fyrir liðið og var komin í sitt besta form undir lok mótsins. Einnig eru aðrir leikmenn sem voru í minna hlutverki farnir en það segir sína sögu að þeir leikmenn (Katla, Bergdís Fanney og Clarissa) eru lykilmenn í þeim félögum sem þær fóru til."
Alltaf erfiðara að verja titil en að sækja - Erlendir leikmenn á leiðinni
„Á móti hafa komið góðir leikmenn en í raun er Arna Sif sú eina sem hefur virkilega stimplað sig inn og verið frábær. Það er mikilvægt fyrir lið sem verður meistari að styrkja sig og koma sterkara til leiks heldur en árinu áður, það er alltaf erfiðara að verja titil heldur enn að sækja hann. Valsliðið mun þó bæta við sig erlendum leikmönnum sem eru ekki komnar með leikheimild og ég held að liðið verði mjög öflugt þegar líður á mótið.
Ég tel að liðið sé gríðarlega vel mannað varnarlega en þurfi að finna ákveðinn takt sóknarlega. Elín Metta var lítið með í vetur og þarf að komast í gang ásamt því að sóknarleikurinn verður alltaf öðruvísi þegar hraðinn frá Mary Alice fer. Takturinn á miðjunni með enga Dóru Maríu er eitthvað sem liðið þarf að finna út úr og þurfa aðrir leikmenn að stíga upp sóknarlega inn á miðjunni. Það er nokkuð ljóst að liðið verður aðeins öðruvísi heldur en í fyrra."
Lykilmenn: Elísa Viðarsdóttir, Mist Edvardsdóttir og Arna Sif Ásgrímsdóttir.
Gaman að fylgjast með: Það verður spennandi að sjá hvernig miðjan verður, eftir að Lára kom inn í fyrra voru Dóra, Lára og Ída mjög öflugar saman. Núna er Adda mætt og Sigríður Theadóra hefur fengið tækifæri í vetur. Þórdís Elva kom frá Fylki en hefur ekki náð takti hingað til. Það eru ýmsir möguleikar í boði en undanfarin ár hefur miðjan alltaf verið styrkur Valsliðsins og mikilvægt að það náist taktur þar.
Komnar:
Arna Sif Ásgrímsdóttir frá Þór/KA
Bryndís Arna Níelsdóttir frá Fylki
Þórdís Elva Ágústsdóttir frá Fylki
Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir frá Kýpur
Aldís Guðlaugsdóttir frá KH (var á láni)
Auður S. Scheving frá ÍBV (var á láni)
Eva Stefánsdóttir frá KH (var á láni)
Sigríður Theód. Guðmundsdóttir frá KH (var á láni)
Farnar:
Bergdís Fanney Einarsdóttir í KR
Clarissa Larisey til Skotlands
Cyera Hintzen til Ástralíu
Dóra María Lárusdóttir hætt
Fanney Inga Birkisdóttir í FH á láni
Katla Tryggvadóttir í Þrótt R.
Mary Alice Vignola til Bandaríkjanna
Athugasemdir